Skóladagvist og skólamatur er ódýrast í Bolungavík í þeim þremur sveitarfélögum sem Bæjarins besta athugaði í framhaldi af verðlagskönnum ASÍ sem greint var frá í gær.
Kostnaður á mánuði fyrir fyrsta barn er 24.591 kr. í Bolungavík, 31.990 kr. í Vesturbyggð og 34.085 kr. í Ísafjarðarbæ.
Mánaðarlegur kostnaður er 28% lægri í Bolungavík en í Ísafjarðarbæ eða 9.494 kr. sem gerir 94.940 kr yfir árið miðað við 10 mánaða vistun barns.
Útreikningarnir miðast við forsendur ASÍ, sem eru vistun í 21 dag á mánuði með hádegismat og hressingu á hverjum degi og 3 klst í vistun á dag eða alls 63 klst yfir mánuðinn.
Það eru maturinn og hressingin sem eru ódýrari í Bolungavík en í hinum sveitarfélögunum. Í Ísafjarðarbæ er það matarkostnaðurinn sem sker sig úr og veldur því að kostnaðurinn er mestur þar.
Ísafjarðarbær | Vesturbyggð | Bolungavík |
Vistun: 18.860 | 20.790 | 20.538 ath 13.692 |
hressing: 4.095 | 4.200 | 798 |
matur: 11.130 | 7.000 | 3.255 |
samtals: 34.085 | 31.990 | 24.591 ath 17.745 |
Ísafjarðarbær | Vesturbyggð | Bolungavík | Einfj. | ||
Vistun/klst | 390 | 330 | 326 | 63 | |
hressing | 195 | 200 | 38 | 21 | |
matur | 530 | 550 | 155 | 21 | |
Í Ísafjarðarbæ er hámark 18.860 kr. á mat yfir mánuðinn. | |||||
Í Vesturbyggð er hægt að kaupa mánaðaráskrif á mat og kostar | |||||
það 7.000 kr í stað 11.550 kr. skv. verðskrá. |
Systkinaafsláttur
Systkinaafsláttur fyrir annað barn er mestur í Vesturbyggð eða 50%, í Bolungavík 35% og 30% í Ísafjarðarbæ. Fyrir þriðja barn er 75% afsláttur í Vesturbyggð, en frítt í Bolungavík og frítt vistunargjald á Ísafirði.
Svo samkvæmt þessari afmörkuðu úttekt er ódýrast fyrir barnafólk að búa í Bolungavík. En hafa ber í huga að það eru fleiri útgjaldaliðir sem þarf að horfa til þegar búsetuskilyrðin eru metin í heild sinni.
leiðrétting: 17.745 kr. í Bolungavík
Í tölum um kostnað fyrir vistun í Bolungavík er reiknað með gæslu í 3 klst , en skv. gjaldskránni er fyrsta klst gjaldfrjáls. Það þýðir að greitt er fyrir 42 klst en ekki 63. Við það lækkar kostnaður við vistun í 13.692 kr. úr 20.538 kr. Heildarkostnaður verður þá 17.745 kr fyrir mánuðinn, sem gerir Bolungavík langódýrasta sveitarfélagið. Er það 48% ódýrara en Ísafjarðarbær.