Tálknafjörður: vinnsluskyldan afnumin á byggðakvótanum

Sveitarstjórn Tálknafjarðar ákvað á fundi sínum fyrir helgi að afnema vinnsluskyldu á 300 tonna byggðakvóta sem sveitarfélaginu var úthlutað fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Er það vegna þess að engin fiskvinnsla er rekin í sveitarfélaginu. En áfram verður löndunarskylda í Tálknafirði á veiddum byggðakvóta. Aðeins þeir bátar koma til greina sem höfðu lögheimili í sveitarfélaginu á síðasta fiskveiðiári. Þá er dregið úr kröfu um annan landaðan afla á móti byggðakvótanum. í stað þreföldunar verður miðað við tvöföldun.

Samkomulag tókst milli minnihluta og meirihluta í hreppsnefndinni um málið.

Í samþykktinni segir:

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps gerir það að tillögu sinni við úthlutun
byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps fiskveiðiárið 2019-2020 að fallið verði frá
vinnsluskyldu þess afla sem landað er sem byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn
ásamt mótframlagi. Þar sem engin fiskvinnsla er rekin í Tálknafjarðarhreppi er
heildarhagsmunum sveitarfélagsins talið betur borgið með því að falla frá
vinnsluskyldu afla. Sveitarstjórn lítur svo á að mikilvægt sé að sem flestir fái
tækifæri til að veiða byggðakvótann þar sem með því móti verða til fleiri störf í
sveitarfélaginu auk þess sem einnig verða til fleiri afleidd störf sem styrkir
byggð í Tálknafjarðarhreppi enn frekar. Sveitarstjórn telur mikilvægt að vernda
þau störf sem fyrir eru á Tálknafirði ásamt því að auka möguleika á fjölgun
starfa,hvort heldur beinna eða afleiddra starfa í kringum útgerð og þjónustu við
hana.“

Skipting aflamarksins   verður milli fiskiskipa þannig að 50%  skal skipt jafnt á þá báta sem hafa landað afla sínum  fiskveiðiárið 2018-2019 í Tálknafirði og hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni  og  50%  skal skipt í hlutfalli við landaðan afla í Tálknafjarðarhöfn á fiskveiðiárinu 2018-2019.

Þá segir:

„Vinnsluskylda samkvæmt 6.gr. reglugerðar nr. 676/2019 verði felld niður. Óskað er eftir niðurfellingu á vinnsluskyldu þar sem engin fiskvinnsla er starfandi í Tálknafjarðarhreppi. Engu að síður er skýrt að löndun aflans er bundin við Tálknafjarðarhöfn. Heimilt verður því að telja afla landaðan til uppboðs á fiskmarkaði til byggðakvóta enda uppfylli útgerð bátsins öll önnur skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta.“

DEILA