Tálknafjörður: vill jarðgöng undir Mikladal

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps segir í ályktun um samgönguáætlun til 5 ára og samgönguáætlun til 15 ára að mikilvægt væri að gera ráð fyrir jarðgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum til þess að bæta samgöngur á svæðinu. Er sérstaklega nefnt að jarðgöng þurfi undir Mikladal milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar og einnig jarðgöng undir Hálfdán og Kleifaheiði.

Ályktunin í heild:

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps leggur áherslu á mikilvægi þess að auka framlög til
viðhalds á vegakerfinu til að mæta brýnni þörf á styrkingum, endurbótum og viðhaldi á
bundnu slitlagi á vegum. Sérstaklega er brýnt að tryggja viðhaldsfé í vegi á
sunnanverðum Vestfjörðum þar sem úttekt Vegagerðarinnar á klæðningum á
Vestfjörðum í júní 2019 sýndi fram á að ástand Bíldudalsvegar er svo slæmt að hann er
talinn ónýtur vegur og þarfnast endurbyggingar og styrkingar. Einnig tekur
sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps undir áherslur bæjarstjórnar Vesturbyggðar í
bókun þeirra frá 11.12.2019 varðandi framkvæmdir á Bíldudalsvegi að þær verði
færðar á 1. tímabil áætlunarinnar og fari fram samhliða framkvæmdum á
Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði.

Jafnframt ítrekar sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ályktun frá 4. haustþingi
Fjórðungssambands Vestfirðinga 25. og 26. október 2019 þar sem ályktað var um
mikilvægi þess að gert væri ráð fyrir frekari jarðgangakostum á Vestfjörðum með
áherslu á sunnanverða Vestfirði. Vegurinn um Mikladal er löngu orðinn úr sér genginn
og mikilvægt að þar verði farið í jarðgangagerð sem fyrst til að tryggja öruggar
samgöngur milli samfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum auk jarðganga undir
Hálfdán og Kleifaheiði.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ítrekar einnig mikilvægi þess að fjármagn í
hafnarbætur verði tryggt og aukið enn frekar frá því sem nú er þar sem ljóst er að
hafnaframkvæmdir og endurbætur á höfnum eru víða orðnar mjög aðkallandi og
fjárþörf til þeirra orðin mikil.

DEILA