Strandabyggð: skatttekjur duga aðeins fyrir launum

Frá Hólmavík. Mynd: jón Halldórsson.

Fjárhagsáætlun Strandabyggðar hefur verið birt, en sveitarstjórn  samþykkti hana 12. desember 2019.

Samkvæmt henni nema skatttekjur ársins 296 milljónum króna. Laun og launatengd gjöld verða 300 milljónir króna samkvæmt áætluninni.

Aðrar tekjur eru áætlaðar 84 milljónir króna auk framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 244 milljónir króna. Alls eru tekjur 624 milljónir og útgjöld 600 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 24 milljónir króna.

Skuldir og skuldbindingar eru 778 milljónir króna samkvæmt því sem fram kemur í áætluninni.

Reiknað skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum á árinu 2020 er 99,5% og lækkar úr 106,8% samkvæmt áætluninni.

Fræðslumál eru stærsti útgjaldaliðurinn upp á 271 milljónir króna. Tekjur á þann lið eru færðar 16 milljónir króna og nettóniðurstaðan því 255 milljónir króna.

Æskulýðs- og íþróttamál eru næststærsti útgjaldaliðurinn 95 milljónir króna. Tekjur eru færðar upp á 15,5 milljónir króna og nettótalan verður því 79,5 milljónir króna. Félagsþjónustan kostar 29,6 milljónir króna  og að frádregnum tekjum 1,6 m.kr. er liðurinn 28 milljónir króna.Skipulags- og byggingarmál eru 22,8 m.kr. og tekjur á móti útgjöldunum eru færðar 8,9 m.kr..

DEILA