Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að skipa starfshóp fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fer yfir framkvæmdaáætlun ofanflóðasjóðs og leggur til heildstætt mat á framkvæmdir við ofanflóðavarnir með áherslu á tímabil næstu fjármálaáætlunar fyrir árin 2021-2025 sem kynnt verður í vor.
Verkefni starfhópsins verður að skoða forgangsröðun fjármuna til verkefna ofanflóðasjóðs og er gert ráð fyrir að hópurinn muni skila af sér tillögum til ríkisstjórnar fyrir 14. febrúar næstkomandi.
Nítján milljarðar króna í sjóði
Í lok árs 2016 voru eignir sjóðsins 19 milljarðar króna og skuld sjóðsins við ríkissjóð var 2,8 milljarðar króna. tekjur af forvarnargjaldi voru það ár 2016 um 2,8 milljarðar króna. Til ofanflóðavarna var veitt 1,1 milljarði króna.
Í nóvember 2017 kom fram að samband íslenskra sveitarfélaga taldi tímabært að auka fjárheimildir ofanflóðasjóðs til varnaraðgerða.
Þá segir í ályktun sambandsins:
„Enn fremur segir, að í kjölfar hrunsins hafi annað ekki verið hægt en að sýna því skilning að ríkið drægi tímabundið úr stuðningi við ofanflóðavarnir. Nú, tæpum áratug síðar, er hins vegar tímabært að fjárheimildir sjóðsins verði endurskoðaðar með hliðsjón af þeim innviðaverkefnum sem beðið hafi og bíða enn úrlausnar víða um land.
Sem dæmi má nefna verkefni vegna ofanflóðavarna á Bíldudal, en þar verður ekki unnt að nýta skipulagðar lóðir þrátt fyrir húsnæðisskort fyrr en byggðin hefur verið fullvarin. Á Siglufirði er stórum áföngum enn ólokið, á Seyðisfirði bíða framkvæmdir í sunnanverðum firðinum, í Norðfirði eru í bið tveir síðari áfangar af fjórum og svo mætti áfram telja.“