Jakob Valgeir ehf: hagnaður 1,9 milljarðar króna

Hagnaður af starfsemi Jakobs Valgeir ehf í Bolungavík á árinu 2018 varð mun betri en árið áður. Hagnaður af rekstri var 1,9 milljarðar króna en var aðeins 225 milljónir króna árið áður.

Munurinn skýrist af hagnaði af sölu hlutabréfa í Solo Sea­food ehf. sem er eig­andi spænska fyr­ir­tæk­is­ins Icelandic Iberica.  Fjármunatekjur voru um 1,6 milljarðar króna. Að öðru leyti var reksturinn svipaður milli ára.

Rekstrartekjur jukust um 13% og voru um 3,6 milljarðar króna. Framlegðin, þ.e. tekjur að frádregnu kostnaðarverði seldrar vöru lækkaði úr 21,7% í 17,5% og varð 625 milljónir króna.

Eignir fyrirtækisins eru um 12 milljarðar króna. Um 2/3 af eignunum eru bókfærðar fiskveiðiheimildir og um 1,8 milljarðar króna eru fjárfestingarverðbréf í Iceland Seafood International hf.

Skuldir eru um 8 milljarðar króna og eigið fé um 4 milljarðar króna.

Á árinu 2018 störfuðu að meðaltali 100 starfsmenn hjá félaginu.

Jakob Valgeir ehf á 38% hlutafjár í Fiskmarkaði Vestfjarða hf., Bolungavík og 26,92% hlutafjár í Klofningi ehf á Suðureyri. Fyrirtækið seldi á árinu hluti sína í Solo Seafood ehf á Seltjarnarnesi og í Karlsbala ehf á Suðureyri.

Töluverð breyting varð á eigendahópi Jakobs Valgeirs ehf á árinu og fækkaði hluthöfum í 6 úr 11. Stærsti hluthafinn er F84 ehf sem á 46,7%. Flosi V. Jakobsson á 35,97%, félagið sjálft á 8,4%,Guðbjartur Flosason 4,46%, Salting ehf. 4,08% og B15 ehf. 0,38%.

Stjórnarformaður er Flosi V. Jakobsson og aðrir í stjórn eru Ástmar Ingvarsson og Björg Hildur Daðadóttir. Framkvæmdastjóri er Jakob Valgeir Flosason.

DEILA