HVEST: forstjórinn hefur óskað eftir auknum fjárfestingum

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sendi í gær bréf til heilbrigðisráðherra þar óskað var eftir auknu fé til að tryggja og bæta bráðaviðbragð, endurnýja tæki og efla almenna heilsugæslu í smábæjunum. „Vonandi verður vel tekið í þær óskir“ sagði Gylfi í svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Aðspurður um viðbúnað stofnunarinnar í þorpunum svaraði Gylfi því til að:

„Í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða er mönnun á Ísafirði og Patreksfirði, auk hjúkrunarheimila á Bolungarvík og Þingeyri. Ekki er um fasta viðveru annarsstaðar, utan heimsókna lækna í heilsugæslusel einu sinni eða tvisvar í viku eftir því sem mönnun leyfir. Slíkt getur fallið niður í ófærð.

Fjárveitingum til stofnunarinnar er í fjárlögum skipt í þrennt, sjúkrasvið, heilsugæslusvið og hjúkrunarsvið. Heilbrigðisstofnuninni er svo gert að framfylgja eins vel og hún getur ýmsum lögum um réttindi sjúklinga innan þess ramma. Við höfum ekki getað sinnt öllu því sem við hefðum viljað og þá þarf eitthvað að láta undan. Við höfum því verið í samtali við yfirvöld um hvernig koma megi til móts við kröfur sjúklinga, stefnu heilbrigðisyfirvalda og fjárlög.“

Gylfi segir ennfremur  að Heilbrigðisstofnunin hafi eflst mikið á síðustu misserum með stórbættri starfsánægju og  að stofnunin veiti fjölbreytta þjónustu, allt frá hjúkrunarheimilum og heilsugæslu til skurðþjónustu.

 

 

DEILA