Fiskveiðikerfið á Íslandi – er það komið til að vera?

Því miður held ég að svarið við þessu sé jákvætt.  Það er búið að festa þessa óværu svo rækilega í sessi og það er enginn  pólitískur vilji hjá einum einasta pólitískum flokkum á landinu til að gera eitt eða neitt til að breyta þessu kerfi.  Samfylkingin kom með tillögur um svokallað „FYRNINGAKERFI“ fyrir nokkrum árum, en sem betur fer „lognaðist“ sú hugmynd útaf enda var hugmyndin  „arfaslök og vitlaus“  Hugmyndin var sú að kvótinn átti að “ afskrifast“ á 20 árum eða 5% á ári.  En engar tillögur um framhaldið en til að „kjafta“ sig út úr því var farið að tala um að bjóða fiskveiðiheimildirnar upp en það er alveg vitað að sú leið hefði leitt til enn meiri samþjöppunar í greininni en það hefur orðið raunin í Færeyjum.

 

Kvótakerfið og upphafleg markmið þess

Margir hafa velt fyrir sér hvert sé hið raunverulega markmið kvótakerfisins og hvort það þjóni í raun og veru hagsmunum allrar þjóðarinnar eða hvort sé verið að þjóna hagsmunum örfárra aðila.  Hér á eftir verða talin upp helstu markmið þessa umdeilda kerfis:

  • Upphaflegt markmið kvótakerfisins var að sjálfsögðu að vernda fiskistofnana við landið og bæta sóknarstjórnunina.
  • Kvótakerfið átti að vernda byggð í landinu, þannig að smærri byggðarlög yrðu  ekki afskipt. Kvótakerfið átti með öðrum orðum að verða eitt verkfæra hinnar svokölluðu byggðastefnu.
  • Kvótakerfið átti að auka mikið afrakstur fiskimiðanna, allur afli átti að koma að landi og menn áttu að auka sóknina í verðmætari og vannýttar fisktegundir.  Með því að stýra sókninni átti að verða hagkvæmara að vinna aflann, það átti að auka útflutningsverðmæti aflans  og mikil hagkvæmni átti að nást við vinnslu hans.

En hver varð raunin?  Náðist að uppfylla þær væntingar, sem voru gerðar til fiskveiðistjórnunarinnar og hver varð svo fórnarkostnaðurinn?

Að hluta til verður að viðurkennast að það hefur tekist að vernda fiskistofnana gegn ofveiði (þótt ekki séu fiskifræðingar sammála um það), því tekist hefur að mestu leyti að koma í veg fyrir ofveiði á helstu fiskistofnum landsins. Þá er ekki beinlínis  hægt að segja að kvótakerfið sjálft hafi brugðist, heldur er það  útfærslan á því sem hefur verið hvað alvarlegust og meðal annars orðið til þess að heilu byggðarlögin eru að leggjast í auðn..

En hefur tekist að bæta sóknarstjórnunina og nýtingu aflans?  Að hluta til hefur sóknarstjórnunin verið bætt, en á öllum málum eru tvær hliðar. Sem dæmi má nefna skip sem á lítinn kvóta eftir af einni fiskitegund, þar er reynt að forðast þau fiskimið, þar sem eru líkur á að sú fiskitegund haldi sig, en ef þannig vill til að umrædd tegund slæðist með í veiðarfærin er þessari fisktegund bara hent í hafið aftur til þess að hún komi ekki til frádráttar þeim litla kvóta sem eftir er.  Undirritaður  var mörg ár til sjós og aldrei upplifði ég það að aðeins ein fisktegund kæmi í trollið eða þá að fiskurinn bærist eftir fyrirfram gerðri pöntun, sem dæmi um þetta má nefna að fyrir nokkrum mánuðum var mokfiskirí í Víkurálnum og var aflinn c.a 50% þorskur og 50% ýsa en merkilegt nokk voru þarna nokkur skip sem áttu lítið sem ekkert eftir af þorskkvóta og aflinn hjá þeim var eingöngu ýsa þó svo að skipin við hliðina á þeim væru að fá 50-50 þorsk og ýsu.  Það er á margra vitorði að vegna þess hvernig verðlagið er á fiski, koma netaveiðibátar aðeins með fisk að landi, sem er lifandi þegar hann kemur inn fyrir borðstokkinn, að öðrum kosti er hann of verðlítill. Það verður að ná hámarksverði fyrir hvert kíló af kvótanum og þar af leiðandi er dauðum fiski bara hent aftur í sjóinn.  Hvernig sem á því stendur þá er ekki lengur landað tveggja nátta fiski.  Skipstjórar sem talað er við fullyrða það að það sé ekki hent einum einasta fiski í sjóinn  (ekki nokkurt einasta brottkast á þeirra skipi).  Auðvitað segja þeir þetta þegar eru á sjónum, því annars yrði þeim „sparkað“ í land með það sama og þyrftu ekki að láta sig dreyma um að fá pláss aftur og allra síst sem skipstjórar.  Svo koma þessir sömu menn í land  (eru hættir til sjós) þá viðurkenna þeir „brottkast“ og einn sem ég talaði við , var svo kræfur að hann fullyrti það að „aðeins um 50% þess afla sem veiddist í landhelgi Íslands kæmi að landi“.

 

Hefur kvótakerfið orðið til þess að þjappa saman byggð í landinu og vernda þau þau byggðarlög, sem hafa staðið höllum fæti gagnvart stærri byggðarlögum?

Ekki er nokkur vafi á því að kvótinn hefur beint og óbeint orðið til þess að margar byggðir þessa lands eru að leggjast í auðn og aðrar að stækka og eflast sem segir okkur að kvótakerfið er með ÖLLU misheppnað , eða réttara sagt útfærslan á því.

En hefur sóknin í verðmætari tegundir aukist?

Svarið við þessari spurningu er , en ekki tel ég að hægt sé að þakka það kvótakerfinu, heldur hafa aðstæður breyst. Sérstaklega hafa orðið miklar breytingar á flutningatækninni, en þessi framþróun hefur fært alla markaði nær okkur, þannig að við höfum getað gefið meiri gaum að sjávarfangi, sem selst fyrir hátt verð á erlendum mörkuðum t.d er Asíumarkaður alltaf að stækka.

Eitt stingur nokkuð mikið að heyra en það er hinn mikli áróður sem LÍÚ-mafían hefur í frammi, ef nokkur  svo mikið sem minnist á breytingar á þessu svokallaða „besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“, það er nefnilega svo að þegar kvótakerfið var sett á átti það aðeins að vera til bráðabirgða en það virðist vera að vissir aðilar í þjóðfélaginu  séu búnir að byggja upp svikamyllu í kringum þetta kerfi að þeir hreinlega séu fastir í eigin vitleysu og haldi að enn meira efnahagshrun verði ef hreyft verði við þessu bulli sem hefur gengið hér á landi í rúm 35 ár. Það er engu líkara en menn álíti bara að þetta kerfi sé ósnertanlegt  eftir allan þennan tíma og ekki kæmi mér mikið á óvart þótt menn myndu bera fyrir sig reglur um hefðirí þessari umræðu.  Menn hefðu kannski átt að leiða hugann að því að þessi verðmæti, sem veiðiheimildirnar eru vissulega, voru ekki þeirra eign  heldur voru fengin að láni  áður en þeir fóru að veðsetja þær og ráðstafa á annan hátt.  Ég er nokkuð viss um að ég kæmist ekki upp með það að veðsetja íbúð sem ég tæki á leigu.

 

Færeyska kerfið (sóknardagakerfi)

 

Ekki  þarf að hafa mörg orð um “Færeyska kerfið” en eins og flestir vita byggir það á sóknardögum sem eru bundnir við skip.  Þetta kerfi var sett á árið 1996 eftir að Færeyingar höfðu reynt að nota “kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd” í tæp tvö ár með hörmulegum  afleiðingum þar sem brottkast og tegundasvindl var mjög mikið.  Þetta fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyinga hefur gefið góða raun,  nema þeir bjóða upp veiðiheimildirnar, en það hefur leitt til meiri samþjöppunar, en þeir eru alveg lausir við brottkast og því er þetta kerfi að skila þeim 100% afrakstri af fiskimiðunum en margir sem ég hef talað við telja að Íslenska kerfið skili að hámarki 30 – 50% afrakstri af fiskimiðunum .  Fiskveiðiflotanum  í Færeyjum er skipt niður í flokka; frystitogara, togara með aðalvél sem er stærri en 400 hö, togara með aðalvél sem er minni en 400 hö, “tvílembingstogara” þ.e þar sem eru tvö skip um eitt troll, stór og lítil línuskip og handfærabáta.  Sérstakar reglur gilda um veiðar skipa í hverjum flokki t.d meiga frystitogarar ekki veiða innan Færeyskrar landhelgi og togarar með stærri aðalvélar en 400 hö og “tvílembingar” verða að halda fyrir utan 12 mílna landhelginnar.

 

 

 

HAFRÓ og fiskirannsóknir við Ísland

 

Ekki er hægt að fjalla um kvótakerfið án þess að minnast á þátt HAFRÓ í því en það er dapurlegt að sú stofnun skuli kenna rannsóknaraðferðir sínar við vísindi og það er kannski enn dapurlegra að hugsa til þess að Íslensk stjórnvöld skuli “kyngja þessari ráðgjöf” án nokkurrar sjáanlegrar gagnrýni.  Nú ætla ég að reyna að gera aðeins grein fyrir  “rannsóknaraðferðum”  HAFRÓ en á niðurstöðum  þessara  “rannsókna”  byggja þeir ALLT stofnstærðarmat þorsks og annarra botnfiska við strendur Íslands á.  Í rétt um aldarfjórðung hefur HAFRÓ byggt ALLAR sínar STOFNSTÆRÐARÁÆTLANIR botnfiska í landhelginni og við strendur landsins á svokölluðu TOGARALLI, sem er þannig útfært:  Togað er á fyrirfram ákveðnum stöðum í landhelginni á nákvæmlega sama tíma, á hverju ári, nákvæmlega jafn lengi, með nákvæmlega eins veiðarfærum.  Á þeim aldarfjórðungi, sem þetta hefur verið í gangi hafa orðið MJÖG MIKLAR breytingar og þróanir í gerð veiðarfæra, ekki er í þessum “RANNSÓKNUM” tekið NOKKUÐ tillit til þess og meira að segja er orðið svo að til þess að geta endurnýjað þessi veiðarfæri og það sem með á að nota verða HAFRÓ menn að fara í hinar og þessar geymslur fyrir AFLÓGA og ÚRELT dót í þeirri von að fá varahluti til þess að geta haldið þessum “VÍSINDALEGU RANNSÓKNUM” sínum áfram á upphaflegum forsendum.  Miklar breytingar hafa orðið á hitastigi sjávar á þessum tíma, hitastig sjávar hefur hækkað, hér við land veiðast nú fiskitegundir sem eingöngu var hægt að lesa um áður og hefðbundnar tegundir við landið hafa FÆRT sig til t.d þegar ég var til sjós fyrir 20 árum fékkst ekki KARFI norðar en í sunnanverðum Víkurál en nú fæst karfinn mikið norðar og svona er um fleiri tegundir.  Svo er annað sem EKKI virðist vera tekið tillit til en það er að fiskurinn er með SPORÐ og notar hann óspart, þannig að fiskur sem var á rannsóknarsvæði 146 kl 14.07 1987 er þar ekki aftur á nákvæmlega sama tíma að ári og alls ekki 2007 eða 2009 og hvað þá 2019.  Það er ekki að sjá að tekið sé tillit til hafstrauma, sjávarfalla, tunglstöðu, átu í hafinu það er eins og menn haldi að hafið sé EITT STÓRT FISKABÚR sem sé algjörlega ÓHÁÐ ytri skilyrðum.  Svo eru menn HISSA á því að fiskistofnarnir við landið fari alltaf minnkandi.  Aðeins einn fiskifræðingur, hefur haldið uppi einhverri vitrænni gagnrýni á aðferðir HAFRÓ, en það er Jón Kristjánsson og hver hafa viðbrögðin verið?  Jú, í stað þess að taka gagnrýninni  og fara yfir rökin og staðreyndirnar, hafa yfirmenn HAFRÓ rægt hann og reynt að gera störf hans og rannsóknir ótrúverðugar.

 

Leiðir til úrbóta

En er þá kvótakerfið alvont og er þá ekkert annað með það að gera en að kasta því og veðja á eitthvað annað fiskveiðistjórnunarkerfi?  Ekki tel ég að svo sé og sú skoðun mín hefur komið fram áður að kvótakerfið sem slíkt hafi ekki brugðist heldur framkvæmdin á því.  Ég hef engan hitt sem ekki er á því að við þurfum á sóknarstýringu að halda.

Hér á eftir fara hugmyndir mínar um hvernig eigi að nýta fiskinn í sjónum til hagsbóta fyrir þegna þessa lands og þá meina ég alla þegna þessa lands, ekki suma.

Fyrst og fremst tel ég að deila eigi kvótanum á milli byggðarlaga.  Segjum sem svo að Þorlákshöfn væri úthlutað 5000 tonna þorskkvóta.  Í Þorlákshöfn landar síðan bátur 20 tonnum af þorski, þessi 20 tonn myndu dragast frá heildar þorskkvóta Þorlákshafnar, þannig að þar væru eftir 4980 tonn af þorski.  En nú á útgerð þessa báts eftir að greiða fyrir að veiða þessi 20 tonn af þorski og væri gjaldið eitthvað hlutfall af aflaverðmætinu, t.d 20 kr á hvert landað kg.  Nú kunna ýmsir að reka upp ramakvein, en ég minni á það að það þurfa allar greinar iðnaðar að greiða gjald fyrir það hráefni sem er notað og því skyldi ekki útgerð gera það líka?  Þessi tekjustofn yrði síðan notaður til þess að fjármagna hafrannsóknir (og þá er ég að meina alvöru hafrannsóknir ekki stofnanir eins og HAFRÓ sem stunda einhverjar rannsóknir sem eru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann og skal þar fyrst minnst á „togararallið“ þeirra sem allt stofnstærðarmat þeirra á þorski byggist á) , veiðieftirlit og landhelgisgæslu.  Nú segja einhverjir að þeir sem eru í útgerð í dag og hafa  keypt sínar veiðiheimildir, hvað á að gera í þeirra málum?  Þarna hafa flestir staðið á gati aðallega vegna þess að þessum fyrirtækjum hefur verið heimilað að eignfæra  veiðiheimildirnar í bókhaldi sínu og síðar var þeim heimilt að veðsetja  þær en þá byrjaði nú vitleysan fyrir alvöru menn fóru að taka lán út á óveiddan fisk (eins fáránlegt og það hljómar) og það sem meira er þessar heimildir eru í trássi við mörg gildandi lög (t.d lög um fiskveiðistjórnun og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar svo eitthvað sé nefnt).  Ég hef ekki á takteinum hvernig eigi að leysa skuldastöðu útgerðarinnar enda myndi ég nú telja að það þurfi að skoða hvert einstakt tilfelli fyrir sig, t.d verður að liggja alveg ljóst fyrir hvernig skuldirnar eru tilkomnar og hvers vegna var til þeirra stofnað.  Ef farin yrði sú leið að innkalla allar  veiðiheimildirnar á einu bretti því að innkalla heimildirnar smátt og smátt held ég að sé eingöngu að flýja þann gríðarlega vanda sem við erum komin í með kvótakerfið og það býður eingöngu upp á að það verði gerð einhver „bráðabirgðaúrræði“ sem eingöngu myndu auka á þann vanda sem þegar væri til staðar, sem ég tel albesta kostinn í stöðunni, væru þeir aðilar sem eru nú þegar í útgerð með talsvert mikið forskot  á þá sem hygðust koma inn í greinina því þeir ættu þegar skipin og veiðarfærin, sem eru notuð við veiðarnar.  Það er bara óhjákvæmilegt að sumar útgerðir eiga eftir að fara í gjaldrot, það gildir bara það sama um útgerðina og önnur fyrirtæki.  Málið er að það er alveg gífurleg offjárfesting í útgerðinni og ég er bara ekki alveg viss um að menn hafi farið eftir einhverri skynsemisreglu í þeim efnum.

Með ráðstöfun af þessu tagi væri komið í veg fyrir að kvóti safnist til örfárra aðila, endurnýjun innan greinarinnar ætti að vera möguleg og einnig að byggð myndi lítið sem ekkert raskast en gæti styrkst aftur. Með því að nota þessa aðferð við veiðistjórnunina væri komið í veg fyrir svokallað kvótabrask og fiskvinnslan í landi gæti sérhæft vinnslu sína.

Það hefur mikið verið rætt um það að útgerðin „gæti ekki“ greitt fyrir veiðiheimildirnar, þetta er náttúrulega bull og ekkert annað.  Ég veit ekki um neina atvinnugrein, sem ekki þarf að greiða fyrir hráefnið í lokaframleiðslu sína.  Að sjálfsögðu á útgerðin að greiða eitthvað fyrir hráefnið og ekki væri óeðlilegt að 20% af lönduðum afla færi í svokallað veiðigjald.  Í þessari grein minni hef ég reynt að draga fram helstu kosti og galla kvótakerfisins eins og það er í dag. Ekki tókst mér nú að finna marga kosti við það en ekki var erfitt að koma auga á gallana.

Það er ekki hægt að gera tæmandi úttekt á fiskveiðikerfinu okkar í einni grein en ég vona að mér hafi tekist að koma skoðunum mínum þokkalega á framfæri.

Jóhann Elíasson

DEILA