Ekki nýtanleg ígulkerjamið í Ísafjarðardjúpi

Út eru komin skýrsla um könnun á ígulkerjamiðum (skollakoppur/grænígull) í Ísafjarðardjúpi  með ígulkeraplóg. Þórishólmi ehf stóð fyrir leiðangrinum í október 2019 en um borð var eftirlitsmaður frá Fiskistofu sem sá um skráningu á afla og myndatöku. Tíu stöðvar voru skoðaðar þar sem dýpi var frá 11-27 m og botngerð mismunandi. Skollakoppur fannst á hörðum botni á þremur stöðvum en þessi ígulker voru smá og yfirleitt undir löndunarstærð sem er 45 millimetrar. Á milli 3 og 13 tegundir voru greindar sem meðafli í togunum.

Niðurstöður leiddu í ljós að engin nýtanleg ígulkeramið eru á þeim svæðum sem skoðuð voru í Ísafjarðardjúpi.

Vestur af Æðey og norður af Borgarey reyndust vera kóralþörungasvæði (Lithohaminon). Slík svæði eru afar viðkvæm, hafa verndargildi og ætti því ekki að stunda plógveiðar á þeim. Í mynni Seyðisfjarðar var töluvert af undirmáls ígulkerjum og hörpudiski. Á einni stöð var leirbotn og engin ígulker og á tveim stöðvum var grjótbotn, einnig án ígulkerja. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að engin nýtanleg ígulkerjamið eru á svæðunum sem skoðuð voru.

Guðrún G. Þórarinsdóttir og Steinunn Hilma Ólafsdóttir unnu skýrsluna.

Frá upphafi ígulkerjaveiða hefur sunnanverður Breiðafjörður verið aðalveiðisvæðið. Frá 2019 eru veiðar utan tilskyldra svæða háðar  tilraunaveiðileyfi.

Árið 1993 hófust veiðar að  á skollakoppi og  tóku kafarar stóran hluta aflans en  fljótlega hófust plógveiðar sem náðu hámarki árið  1994 þegar aflinn varð 1.500 tonn. Allur afli var unninn innanlands og var veitt  víða um landið, um tíu vinnslur voru starfandi 1993– 1996. hrognin voru seld úr landi, aðallega til Japans. veiðarnar stöðvuðust árið 1997 þegar markaðir hrundu.

Árið 2004 hófust plógveiðar að nýju í innanverðum Breiðafirði en litlu var landað     (<50 t) þar til árið 2007 er aflinn var 134 tonn. Síðan hefur aflinn verið á bilinu 130–400 tonn og allur seldur á erlendan markað.

DEILA