Einar Valur: eina alíslenska félagið í laxeldi í algerri óvissu

Einar Valur Kristjánsson. Mynd: vb.is

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvör hf gagnrýnir stjórnvöld og sérstaklega Hafrannsóknarstofnun harðlega í áramótapistli. Hann segir að Háafell ehf, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins Gunnvör hf sé í algerri óvissu eftir 8 ára bið eftir leyfi fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. segir Einar Valur það skjóta skökku við á meðan fyrirtækjum á öðrum svæðum sé leyft að byggja sig upp. Stjórnvöld hafi algerlega mistekist að tryggja að leyfisveitingar séu byggðar á bestu fáanlegum vísindum og mótvægisaðgerðum.

Í greininni segir Einar Valur Kristjánsson orðrétt.

„Á árinu fékk Háafell, dótturfélag HG, útgefið stækkað leyfi fyrir seiðaeldisstöð félagsins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp en þar hafa verið framleidd heilbrigð laxa- og regnbogasilungsseiði um árabil. Eins hafa leyfi fyrir regnbogasilungseldi í sjókvíum verið auglýst. Eru þetta jákvæð skref í uppbyggingaráformum Háafells í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.

Ríflega átta ár eru síðan áform um laxeldi Háafells voru fyrst kynnt stjórnsýslunni. Ennþá ríkir þó fullkomin óvissa um fyrirkomulag laxeldis við Ísafjarðardjúp. Það skýtur skökku við að það sé Háafell, eina alíslenska fyrirtækið sem hefur gildar umsóknir í laxeldi, sem situr uppi með algjöra óvissu um hvenær uppbygging getur hafist, á meðan öðrum fyrirtækjum hefur verið gert kleift að byggja sig upp á öðrum svæðum.

Ekki virðist skipta máli hve oft sól stendur hæst á lofti við Djúp, ekki bólar enn á nýju áhættumati sem þó hefur verið boðað trekk í trekk af hendi Hafrannsóknastofnunar. Enn sitja því fyrirtæki og samfélög við Djúp eftir í óvissu, á svæði sem hefur verið skilgreint sem fiskeldissvæði. Stjórnvöld bera ábyrgð á að leyfisveitingar séu byggðar á bestu vísindum og mótvægisaðgerðum. Miðað við reynslu okkar undanfarin misseri og ár hefur stjórnvöldum mistekist algjörlega að uppfylla þetta hlutverk sitt. Það er hinsvegar von mín að á nýju ári sjái menn að sér og tryggi að hægt verði að hefja langþráða uppbyggingu laxeldis við Ísafjarðardjúp af fullum krafti.“

DEILA