ASÍ: mest lækkun fasteignagjalda í sérbýli er á Ísafirði

Alþýðusamband Íslands hefur birt samantekt um álögð fasteignagjöld 2020 og borið þau saman við síðasta ár. Markmiðið er að fylgja eftir ákvæði kjarasamninganna þar sem samið var um að opinber þjónusta hækkaði ekki umfram 2,5%.

Niðurstaðan er að víða á landinu hækka sveitarfélög fasteignagjöldin langt umfram þessi mörk. Fyrir íbúðir í fjölbýli  kemur í ljós að flest sveitarfélögin hækka fasteignagjöldin meira en 2,5%. Mest er hækkunin 14,9% á Sauðárkróki.

Á Ísafirði eldri byggð er hækkunin 3,62%, úr kr 233.086 kr í 241.519. Hækkunin á Ísafirði er aðeins um 2.600 kr. umfram 2,5% mörkin.

Öðru máli gegnir um fasteignagjöld á sérbýli. Þar varð lækkun um 9,3% á Ísafirði eldri byggð milli ára. Er það mesta lækkunin á landinu í samantekt ASÍ.  Gjöldin voru 419.549 kr. og lækkuðu 2020 í 380.580 kr. Lækkunin er 38.969 kr.

Í fjölbýli voru fasteignagjöldin reiknuð út frá 100 fermetra íbúð og í sérbýli er miðað við 200 fermetra húsnæði. Fimmtán fjölmennustu sveitarfélögin voru tekin til útreiknings.

Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, fráveitugjöld, vatnsgjöld og sorphirðugjöld. Lóðarleiga er ekki höfð með í samanburðinum.

DEILA