Árneshreppur: 5 mkr. styrkur til snjómoksturs

Veiðileysuháls er mikill farartálmi á vetrum. Mynd: Jón Halldórsson.

Árneshreppur fékk 5 milljóna króna fjárveitingu á fjárlögum 2020 sem ætluð er til þess að greiða hlut hreppsins í helmingamokstri Vegagerðarinnar norður í Árneshrepp á þeim 11 vikum yfir háveturinn þegar engin mokstursregla er í gildi.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps var kampakát með fjárveitinguna. Hún sagði að búið væri að leggja féð inn á reikning hreppsins. reglan er að ef hreppurinn biður um mokstur á þessum tíma þá verður hann að greiða helming kostnaðar.

Eva sagði í fyrra hefði fimm helmingamokstrar kostar hreppinn hálfa aðra milljón króna. Hún vonaðist til þess að 5 milljónirnar myndu duga til þess moka þegar þörf er á og skynsamlegt er vegna veðurs þennan 11 vikna tíma. Nú þegar í janúar eru komnir tveir helmingamokstrar sagði Eva.

Eva Sigurbjörnsdóttir sagði að fyrsti þingmaður kjördæmisins  Haraldur Benediktsson, sem jafnframt er formaður fjárlaganefndar  hefði stutt vel við bakið á Árneshreppi í þessu máli og ætti hann þakkir góðar skildar fyrir.

DEILA