Vesturbyggð vill nýjan Bíldudalsveg fyrr og jarðgöng

Lokaður vegur á Vestfjörðum.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar afgreiddi umsögn síma um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024 og um samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

Nýjan Bíldudalsveg strax

Bæjarstjórn Vesturbyggðar gerir alvarlegar athugasemdir við að ekki skuli vera gert ráð fyrir framlögum til Bíldudalsvegar, sem er frá Dynjandisheiði út Arnarfjörð að Bíldudal,  fyrr en á 2. tímabili áætlunarinnar 2025-2029. Bæjarstjórn Vesturbyggðar gerir þá skýlausa kröfu að framkvæmdir við Bíldudalsveg verði færðar á 1. tímabil áætlunnar og fari fram samhliða framkvæmdum á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði á 1. tímabili áætlunnar.

Bæjarstjórnin minnir á úttekt Vegagerðarinnar á klæðningum á Vestfjörðum í júní 2019 sem dregur fram að Bíldudalsvegur er 100% ónýtur vegur og þarfnast endurbyggingar og styrkingar. Bæjarstjórn ítrekar mikilvægi þess að viðhaldsfé verði tryggt í þessa vegakafla.

Fagnar fé til Bíldudalshafnar

Um framlög til hafnaframkvæmda segir í ályktun Vesturbyggðar að bæjarstjórnin fagni því að veitt séu framlög til Bíldudalshafnar en bendir á að sú framkvæmd leysir aðeins að litlu leyti þann mikla skort sem er á athafnarsvæði og hafnaraðstöðu við Bíldudalshöfn. „Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar því mikilvægi þess að veitt verði frekari framlög til hafnarframkvæmda svo tryggja megi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem fer fram á Bíldudal og fyrirhuguð er.“

Komið að jarðgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum

Þá lýsir bæjarstjórn Vesturbyggðar yfir vonbrigðum með að í samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir undirbúningi jarðgangaframkvæmda á sunnanverðum Vestfjörðum. Á 4. haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga 25. og 26. október 2019 var ályktað um mikilvægi þess að gert væri ráð fyrir frekari jarðgangakostum á Vestfjörðum með áherslu á sunnanverða Vestfirði. Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar mikilvægi þess að unnið verði að undirbúningi jarðgangakosta á Vestfjörðum, þ.e. jarðgöng undir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði.

 

DEILA