Vesturbyggð: 60 mkr sparnaðaraðgerðir

Í svari bæjarstjóra Vesturbyggðar við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að uppsagnir fjögurra starfsmanna fyrir skömmu séu liður í margháttuðum sparnaðaraðgerðum sem ætlaðar eru til þess að lækka rekstrarkostnað um 60 milljónir króna á næsta ári miðað við 2019. segir að hagræðingaraðgerðirnar sem ráðast þarf í af hálfu sveitarfélagsins séu margar og misumfangsmiklar og taki til allra málaflokka sveitarfélagsins.

Ekki er nánar skýrt hverjar aðgerðirnar eru, né er að finna  upplýsingar um þær í fundargerðum sveitarfélagsins. Síðari umræða um fjárhagsáætlun 2020 fer fram á næsta bæjarstjórnarfundi.

Svar bæjarstjóra í heild:

Vísa til meðfylgjandi fréttatilkynningar um málið sem birt hefur verið á heimasíðu sveitarfélagsins:

 

„Vegna fréttaflutnings síðustu daga um uppsagnir hjá Vesturbyggð vill sveitarfélagið koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum.

 

Þann 19. nóvember 2019 tók gildi skipulagsbreyting þar sem eftirfarandi störf voru lögð niður innan sveitarfélagsins. Um er að ræða starf starfsmanns í vatns- og fráveitu, starf kerfisstjóra og starf bókara sem lögð voru niður 19. nóvember og létu viðkomandi starfsmenn af störfum sama dag. Þá var tilkynnt að starf fræðslustjóra yrði lagt niður um áramót.

 

Ákvörðun sem þessi er sveitarfélaginu hvort í senn þungbær og erfið, en er því miður nauðsynleg vegna þeirra hagræðingaraðgerða sem grípa þarf til í rekstri sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið þungur eins og ljóst er af ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2018. Á árinu 2019 hefur verið ráðist í þónokkrar hagræðingaraðgerðir og við vinnslu fjárhagsáætunar 2020 varð ljóst að ráðast þurfti í enn frekari aðgerðir. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun bæjarstjórnar Vesturbyggðar 2020-2023 fór fram 25. nóvember 2019 en áætlunin mun gera ráð fyrir miklum hagræðingaraðgerðum og niðurskurði í rekstri sveitarfélagsins, sérstaklega í A-hluta samstæðunnar. Þannig er gert ráð fyrir að dregið verði verulega úr rekstrarkostnaði á árinu 2020 og nemur hagræðingin rúmlega 60 milljónum króna á milli ára. Tillögur til hagræðingar og niðurskurðar í rekstri, eru settar fram með það að markmiði að hagræðingin muni ekki skerða þjónustu við íbúa og nýta betur þann góða mannauð sem sveitarfélagið býr yfir. Hagræðingaraðgerðir þær sem ráðast þarf í af hálfu sveitarfélagsins eru margar og misumfangsmiklar en þær taka til allra málaflokka sveitarfélagsins. Skipulagsbreyting sú sem var kynnt starfsmönnum sveitarfélagsins 19. nóvember sl. er hluti af þessum erfiðu en nauðsynlegu hagræðinaraðgerðum, en ekki er gert ráð fyrir frekari uppsögnum starfsmanna á árinu 2020.

 

Vesturbyggð vill að lokum þakka þeim starfsmönnum sem látið hafa af störfum og munu láta af störfum kærlega fyrir þeirra mikilvæga og góða vinnuframlag til samfélagsins með störfum sínum fyrir sveitarfélagið.“

DEILA