Vestfirðir: meðalatvinnutekjur undir landsmeðaltali

Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur 2008-2018 kemu fram að heildaratvinnutekjur á Vestfjörðum á árinu 2018 hafi numið  24,7 milljörðum kr.
sem var aukning upp á 1,2 milljarð kr. eða 5,2% frá fyrra ári. Frá árinu 2008
hafa atvinnutekjur á svæðinu aukist um tæplega 2,8 milljarða kr. eða 12,6%
sem er aðeins ríflega helmingur af landsmeðaltali.

Meðalatvinnutekjur á Vestfjörðum voru heldur lægri en landsmeðaltal.
Norðanverðir Vestfirðir voru sjónarmun hærri en Barðastrandar- og
Strandasýslur. Hlutfall atvinnutekna kvenna á Vestfjörðum var tæplega 38% en
ekki var marktækur munur á milli svæða. Það er aðeins undir landsmeðaltali.

Fiskveiðar og fiskvinnsla voru stærstu atvinnugreinar svæðisins mældar í
atvinnutekjum árið 2018 en í næstu sætum þar á eftir komu stjórnsýsla og
almannatryggingar, heilbrigðis- og félagsmál og fræðslumál.

Á sunnanverðum Vestfjörðum hafa tekjur af fiskeldi aukist verulega og reyndust vera tæplega 900 milljónir kr. á árinu 2018, litlu minni en atvinnutekjur af fiskveiðum á
svæðinu sem inniheldur Barðastrandar- og Strandasýslu og nokkru meiri en
atvinnutekjur af fiskvinnslu.

Byggðastofnun setur fyrirvara við allmikinn samdrátt í stjórnsýslu og
almannatryggingum og mikla aukningu í heilbrigðis- og félagsmálum á
tímabilinu 2008-2018 á Vestfjörðum og telur  þær tölur ekki trúverðugar, hugsanlega vegna ófullngjandi skráningar launagreiðenda.

Skýrslan byggir á gögnum sem fengin voru frá Hagstofu Íslands sem vann þau
úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra.  Gögnin innihalda
staðgreiðslutekjur einstaklinga, þ.e. laun og reiknað endurgjald, hér eftir
nefndar atvinnutekjur. Þetta eru ekki heildartekjur einstaklinga þar sem
upplýsingarnar innihalda ekki greiðslur eins og bætur almannatrygginga,
greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðra liði sem ekki teljast vera atvinnutekjur.
Gögnin innihalda því heldur ekki hagnað af rekstri einyrkja sem eru með
rekstur á eigin kennitölu.

DEILA