Tvö hundruð manns í skötuveislu Arnfirðingafélagsins

Tvö hundruð manns komu í skötuveislu Arnfirðingafélagsins sem haldin  var í gær í Haukahúsinu í Hafnarfirði.  Að sögn forsvarsmanna félagsins hafa  aldrei verið verið fleiri í árlegri skötuveislu félagsins.

Gera varð sérstakar ráðstafanir til þess að sækja fleiri stóla og borð og höfðu kokkar félagsins varla undan að elda matinn og bera fram fyrir gestina.

Sjá mátti Vestfirðinga víðar að en úr Arnarfirðinum. Þar voru Strandamenn, Ísfirðingar auk fólks úr flestum sveitum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Skötuveislan er aðalfjáröflun Arnfirðingafélagsins í Reykjavik ár hvert. Félagið stendur fyrir ýmsum viðburðum svo sem sólarkaffi og messu. Langviðamest er stórhátíðin Bíldudals grænar baunir sem haldin er á Bíldudal annað hvert ár.  Stendur hátíðin í nokkra daga og er hvergi sparað til. Arnfirðingar, og þá sérstaklega Bílddælingar, hafa alltaf verið sérlega duglegir við leiklist, tónlist  og aðra menningarstarfsemi og ber hátíðin Bíldudals grænar baunir keim af því.

Hátíðin var haldin í sumar og verður næst að tveimur árum liðnum 2021. Reyndar er svo mikill hugur í mörgum félagsmönnum að þau ár, sem hátíðin er ekki, hefur verið önnur meira sjálfsprottin hátíð. Hún er ekki eins umfangsmikil en engu að síður stór á vestfirskan mælikvarða og gengur undir nafninu hálfbaun.

Næsta sumar má ganga að því vísu að hálfbaun verði á Bíldudal með fjölbreyttri dagskrá þar sem arnfirskir listamenn leika af fingrum fram og skemmta sjálfum sér og öllum gestkomandi.

Myndir af skötuveislunni tók Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA