Ritfregn: Steinólfur í Ytri-Fagradal og Skarðsstrandarrolla

Út er komin bókin Skarðsstrandarrolla og Einræður Steinólfs Lárussonar í Ytri-Fagradal. Höfundur er Finnbogi Hermannsson. Skarðsstrandarrolla er eins konar inngangsfræði að sögu mannsandans á Skarðsströnd. Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal kom út fyrir 16 árum og er löngu uppseld. Verkið sem nú kemur út heitir Skarðsstrandarrolla og Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal.

Um það leyti sem Steinólfur Lárusson var að fæðast árið 1928 komust ánauðugir bændur undan lénsvaldinu á Skarði sem þar hafði ríkt frá því á 12 öld að minnsta kosti. Lénsmennirnir á Skarði höfðu átt allar jarðir í Skarðshreppi og leigðu bændum og búaliði. Eftir sjö alda yfirráð Skörðunga gafst leiguliðum kostur á að kaupa jarðirnar. Þannig var það einmitt í Ytri-Fagradal. Líklega er þetta einsdæmi í Íslandssögunni að sama ættin hafi ríkt  með þessum hætti allt fram á okkar daga.

Nágrannar fjölskyldunnar í Ytri-Fagradal reyndust henni andvaragestir. Það voru þeir á Heinabergi sem stunduðu kerfisbundinn sauðaþjófnað árum saman. Þetta voru ofbeldismenn sem hótuðu nágrönnum sínum öllu illu þegar þeir fóru fram á réttlæti. Enduðu svo loksins bak við lás og slá eftir að hafa stolið og skorið um 400 fjár.

Skarðstrandarsagan komst aldrei inn í stórsöguna svo  kölluðu enda þót valdsmenn þar hafi átt í stríði í 200 ár. Það voru þeir á Skarði og frændur þeirra Ballarárfeðgar. Sú saga er tilfærð í sagnabálkinum Úr fylgsnum fyrri aldar þar sem séra Friðrik Eggerz skrifar æfisögu þeirra feðga Eggerts á Ballará og sína eigin sem voru varnarrit.

Einræður Steinólfs í Fagradal er skemmtilesning sem mest má vera og nær hápunkti í hinu fræga Trjónukrabbabréfi til þar til gerðra yfirvalda.

Finnbogi Hermannson er höfundur að báðum verkum sem hann selur sjálfur úr skottinu á Chevrolet sínum svörtum svo og í pósti. Síminn hjá karlinum er 861-8993 og póstfangið finnbh@simnet.is. Hann tekur niður pantanir og ekur þeim nú til kaupenda á suðvesturhorninu þar sem hann er staddur. Gæti líka komið við á leiðinni vestur eftir hálfan mánuð og afhent bækur.

 

DEILA