Mikil afföll í seiðaeldisstöðinni á Tálknafirði

Frá vígslu seiðaeldisstöðvarinnar. Mynd: Eva Dögg Jóhannesdóttir.

Um helgina varð Arctic Fish fyrir því áfalli að missa nærri hálfa milljón seiða í einu af kerfum eldisstöðvar fyrirtækisins í Norður Botni í Tálknafirði.

Seiðaeldisstöðin er ein tæknivæddasta landeldisstöð sinnar tegundar sem byggir á vatnsendurnýtingarkerfi og var nýlega formlega tekin í notkun. Enn er verið að kanna hvað olli þessum skaða og eitt af því sem skoðað er sérstaklega eru möguleg áhrif mikilla rafmagnstruflana á síðustu dögum.

Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish segir að afföll af þessu tagi eru alltaf slæm og sé  skaðinn ekki einungis fjárhagslegur, heldur hafi hann líka áhrif á starfsmenn sem nú vinna að greiningu á vandanum.

Að sögn Sigurðar er þess er gætt til hins fyllsta að tryggja öryggi í eldinu og er hverri eldisbyggingu skipt upp í nokkrar aðskildar eldiseiningar. Í þessu tilviki var það eitt kerfi af sex sem bilaði með þessum afleiðingum og unnið er hörðum höndum að því að greina hvað olli þessari bilun til að koma í veg fyrir slíkt til framtíðar.

Fulltrúar Arctic Fish sem Bæjarins besta hefur haft samband við eru varkárir þegar spurt er um mögulegar ástæður fyrir seiðadauðanum og vilja sem minnst segja.  En skaðinn varð þegar óveðrið stóð yfir með verulegum rafmagnstruflunum og seiðin eru á landi í húsi en ekki í sjó og af þeim sökum verður það að teljast mjög líklegt að þar sé meginorsökina að finna. Hvort sem það reynist rétt eða ekki er dagljóst að uppbygging atvinnulífs á Vestfjörðum ræðst að verulegu leyti af því að rafmagn sé framleitt og á því örugg afhending.

DEILA