Kirkjan í Holti 150 ára.

Núverandi kirkja í Holti í Önundarfirði er 150 ára í ár en hún var byggð 1869. Með byggingu hennar lauk margra alda skeiði torfkirkna í Holti. En talið er að kirkja hafi staðið í Holti frá því á 11. öld. Heimildir eru fyrir því að þar hafi verið endurreistar alls sex torfkirkjur frá siðaskiptum.

Sú kirkja sem stendur nú var reist sem timburkirkja og var það séra Stefán P. Stephensen sem þá sat í Holti sem lét reisa kirkjuna. Stefán var umsvifamikill héraðs- og kirkjuhöfðingi um sína daga og bjó stórbúi á prestsetrinu. Í bréfi til biskups árið 1870 hefur Stefán orð á því að kirkjubyggingin hafi reynst frekar dýr, enda hafi hún verið byggð frá grunni úr góðum efnum. Efnið sem var fura var innflutt frá Svíþjóð. Sá sem sá um smíðina var Kristján Vigfússon.

Frá því að kirkjan var byggð hefur hún tekið nokkrum breytingum bæði að formi og efni  og það helst að steypt var utan um hana árið 1937 og á 100 ára afmæli kirkjunnar var reist við hana fordyri.

Kirkjumunir

Margir munir prýða kirkjuna. Kirkjuklukkurnar eru tvær og báðar frá fyrri hluta 16. aldar og á altarinu eru tveir kertastjakar úr kopar í barokkstíl með nafni séra Sveins Símonarsonar, föður Brynjólfs biskups, með ártalinu 1604. Stjakana gaf sér Sveinn en hann var prestur í Holti frá árinu 1582 til 1644. Í Holti fæddist Brynjólfur sonur hans og Ragnheiðar, Brynjólfur varð síðar biskup í Skálholti. Fleiri munir eru í kirkjunni og líka má finna muni á Þjóðminjasafninu sem tilheyrðu Holti.

Kirkjustaðurinn Holt

Kirkjustaðurinn Holt á sér mikla sögu. Holt er á hæð við miðju Önundarfjarðar með eitt mesta undirlendi sýslunnar og er víðsýnt í allar áttir eins og fjallgarðurinn leyfir. Holt hefur því ávallt verið mikilvægt bæjarstæði, hefur haft hlutverki að gegna í stjórnmálasögu Ísland og telst því með sögufrægum stöðum á Vestfjörðum. Kirkja var fyrst reist í Holti fljótlega eftir kristnitöku um árið 1000 og var þá helguð heilögum Lárentíusi píslavotti. Bærinn er m.a. nefndur í Sturlungasögu.

 

Heimild: Kirkjur Íslands (20179

 

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm., tók saman.

DEILA