Jesús og Jónar tveir

Á jólum minnumst við þess að Jesús var fæddur í Betlehem.  Orðið Betlehem merkir hús brauðanna.  Það er vel við hæfi að Jesús sé fæddur þar, enda sagði Jesús að hann væri brauð lífsins og sá, sem til sín kæmi, myndi hvorki hungra né þyrsta.

Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness virðist hafa þekkt þessa merkingu orðins Betlehem því hann birtir í smásagnakveri sínu Sjöstafakverinu, sem út kom árið 1964, smásöguna um Jón í Brauðhúsum.  Jón þessi er dáinn þegar tveir lærisveinar hans hittast og taka tal saman.  Lærisveinarnir eru látnir heita Filippus og Andrés líkt og tveir af lærisveinum Jesú.  Af smásögunni er augljóst að Kiljan er að fjalla um Jesú og það hvernig fólk túlkaði hann og minntist hans.  Líkt og greina má af fleiri bókum Kiljans þá er eins og þarna sé hann farinn að hugsa um næstu skáldsögu sína en það var verkið Kristnihald undir Jökli, sem kom út fjórum árum seinna.

Í Kristnihaldinu er sagt frá Jóni prímusi, sérkennilegum presti, sem virðist lítið gefa fyrir helgisiði en helgar sig í staðinn því að hjálpa fólki, hann járnar hesta og gerir við prímusa.  Jón prímus er nauðalíkur þeim Jóni í Brauðhúsum, sem Filippus man eftir.  Jón prímus er í raun Kristsgervingur þegar nánar er að gáð.  Skáldið lætur hann líkjast Kristi á vissan hátt.  Báðir lifa þeir á brauði og fiski, sem þeim er gefið.  En þrátt fyrir fátækt sína og allsleysi þá geta þeir Kristur og Jón prímus ávallt gefið fólki með sér af fisknum og brauðinu.  Báðir tilheyra þeir þeim fámenna hópi manna, sem eru svo „ríkir að þeir hafa efni á því að vera fátækir,“ – eins og skáldið orðar það.  Líkt og Jeús var upp á kant við faríseana og fylgdi ekki þeirra venjum þá virðist Jón prímus lítið gefa fyrir formsatriði og valdakerfi íslensku kirkjunnar.

Þessi samanburður á Jesú Kristi og tveimur sögupersónum í skáldverkum Halldórs Kiljans Laxness kann einhverjum að finnast óviðeigandi á helgri jólahátíð.  En þegar betur er að gáð þá hæfir hann.  Við höfum flest búið okkur til í huganum mjög fallega mynd af fæðingu Jesú Krists, með skrautklæddum englum, vitringum í glitklæðum og fleiru.  En sé texti Lúkasar lesinn þá blasir það við að Jesús var fæddur við hinar fátæklegustu aðstæður.  Það var ekkert pláss fyrir hann híbýlum manna eða því gistiskýli, sem ætlað var að hýsa ferðafólkið í Betlehem.  Í staðinn voru þau María og Jósef í litlum fjárhúshelli og þegar Jesúbarnið var fætt þá var það lagt í jötu, sem notuð hefur verið undir fóður handa skepnunum.  Umgjörðin gat vart verið fátæklegri.  Þess vegna má segja að sú ofgnótt, sem einkennir jólahald margra vestrænna þjóða sé í nokkru ósamræmi við frásögn jólaguðspjallsins.

Boðskapur jólaguðspjallsins er sá að Guð vitjar mannkyns og birtist því í litlu barni, sem fætt er af fátækri móður.  Guð varð maður í Kristi, sögðu hinir fornu kirkjufeður.  Hann gerðist einn af okkur.  Þess vegna var það ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá Nóbelsskáldinu góða að líkja þessum Jónum tveimur við Krist.  Karlmannsnafnið Jón er stundum notað sem samheiti yfir allar manneskjur.  Og boðsakpur jólanna er sá að Jesús sé bróðir og frelsari allra mann.  Öll séum við börn Guðs.  Þess vegna erum við líka öll bræður og systur.  Jólin boða fólki samkennd og kærleika.

Kæri lesandi, ég hvet þig til að opna Biblíuna þína og lesa annan kaflann í Lúkasarguðspjalli.  Lestu hann með opnum huga.  Hlustaður svo á fallega tónlist og vittu til hvort þú skynjir ekki hinn sanna anda jólanna, anda auðmýkar og kærleika.  Megi Guð gefa þér og þínum gleðileg jól.

 

Magnús Erlingsson,

prestur á Ísafirði.

DEILA