Ísafjörður: fjárhagsáætlun 2020 afgreidd. Minnihlutinn sat hjá.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddu fjárhagsáætlun næsta árs ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2021 til 2023 á fundi sínum í síðustu viku.

Meirihlutinn samþykkti tillögu minnihlutans um 2 mkr viðbótarframlag til Blábankans á þingeyri og tók vel í tillögu um verkefnið Skapandi sumarstörf, en bókaði að útfæra þyrfti það betur áður en ljóst verður hvað það mun kosta. Fjármagn myndi verða tryggt í verkefnið þegar það hefur verið útfært.  Þá hafði minnihlutinn talið að auka þyrfti fé til fráveitumála og meirihlutinn sagði að gert væri ráð fyrir 85 milljónum í þann lið á næstu þremur árum.

Segir í bókun meirihlutaflokkanna að þa- væri „von bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að með þessum aðgerðum muni fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2020 verða samþykkt af öllum bæjarfulltrúum.“

Það gekk ekki eftir. Í bókun minnihlutans segir:

„Við bæjarfulltrúar Í-listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar getum ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun og munum sitja hjá við afgreiðslu hennar og þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í vinnubrögðum miðað við fjárhagsáætlunina frá því í fyrra, má gera enn betur.
Það eru jákvæðir þættir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og samráð við minnihlutann hefur verið viðhaft. Í-listinn fagnar því sérstaklega að tillögur hans um aukið framlag til Blábankans hafi verið samþykkt, og að fjármagni verði veitt í skapandi sumarstörf og stefnumótun í fjármálum bæjarins.“ Þá kom fram í bókuninni að  ánægjulegt væri „að gert sé ráð fyrir framlagi til Edinborgarhússins, áframhaldandi uppbyggingu göngustíga, í Tankinn á Þingeyri svo eitthvað sé nefnt.“

Lét minnihlutinn í ljós efasemdir um rekstur A hluta bæjarsjóðs , þar væri veltufé frá rekstri að dragast saman og lítið mætti bera út af.

Í listinn gagnrýndir sérstaklega þriggja ára áætlunina. Í bókuninni segir : „Í-listinn gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð við þriggja ára áætlun fyrir árin 2021-2023. Það getur ekki talist ásættanlegt að áætlunin fái enga umfjöllun í bæjarráði eða í öðrum nefndum bæjarins áður en hún er samþykkt af bæjarstjórn.“ Bókuninni lauk með þessum athugasemdum:

„Það er margt gagnrýnivert í fjárfestingaráætlun 2020-2023. Mörg verkefni eru þar án umræðu og undirbúnings en þar birtist ákveðið stefnuleysi meirihlutans. Ekki er gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu næstu árin né bættri aðstöðu til sundiðkunar. Það er því afar mikilvægt að farið verði í stefnumótunarvinnu til lengri tíma.
Í-listinn harmar að fallið hafi verið frá áformum um Hornstrandastofu en það verkefni er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða.“

 

DEILA