IPN veiran veldur ekki sjúkdómi í laxi

Matvælastofnun hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að IPN-veiran sem greindist í laxi í sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði nýverið er ekki af þeirri gerð sem veldur sjúkdómi í laxi. Þetta sýna niðurstöður raðgreiningar á veirunni.

Í nóvember greindist veira, sem valdið getur sjúkdómnum brisdrepi í fiskum, í laxi úr sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Þetta er í fyrsta sinn sem IPN-veiran greinist í laxi á Íslandi, en áður hefur hún verið staðfest í lúðu árið 1999. IPN-veiran uppgötvaðist í kjölfar sýnatöku við reglubundið innra eftirlit hjá Löxum fiskeldi ehf. í Reyðarfirði. Laxinn sem veiran greindist í er heilbrigður og ástand laxa í kvíum almennt gott sagði í tilkynningu Matvælastofnunar þá.

Veiran er útbreidd í vatna- og sjávardýrum á heimsvísu, bæði í villtu umhverfi og eldi. Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum.

Einstaka afbrigði IPN-veirunnar geta valdið tjóni í laxeldi, einkum í ferskvatnseldi á seiðum. Meinvirkni er mismunandi milli arfgerða og má greina á milli þeirra með raðgreiningu erfðaefnis. Veiran var upphaflega greind á Keldum og síðan raðgreind á rannsóknastofu Evrópusambandsins í veirusjúkdómum. Því er líklegast að veiran hafi borist úr umhverfinu, en hún er útbreidd í vatna og sjávardýrum um allan heim, bæði í eldi og villtu umhverfi.