Hreint, óspillt og umhverfisvænt samfélag?

Garðsstaðir og Ögur í nóvember 2019. Mynd: aðsend.

Í Súðavíkurhreppi er þessa dagana verið að vinna tillögur að aðalskipulagi. Margt kemur fram í þeim tillögum um ósnortna náttúru og áherslur á sjálfbærni í sveitarfélaginu. Það tengist markaðssetningu á þeirri ímynd Vestfjarða sem unnið er að á sameiginlegum vettvangi vestfirskra sveitarfélaga, Vestfjarðastofu, sem Súðavíkurhreppur er aðili að. Snúa áherslur í sameiginlegri markaðssetningu svæðisins m.a. að hreinu umhverfi, óspilltri náttúru, umhverfisvænu samfélagi og atvinnulífi sem ástundi sjálfbærni og heiðarlega viðskiptahætti. Þá segir meðal annars á vef stofunnar „Vestfjarðastofa starfar náið með sveitarfélögunum á svæðinu að umhverfismálum, enda hafa Vestfirðir einsett sér að standa framarlega í umhverfismálum. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa meðal annars unnið sér inn silfurvottun umhverfissamtakanna Earth Check. Vestfjarðastofa heldur utan um þá vottun með verkefninu Umhverfisvottun Vestfjarða“. Einnig er vert að minnast á metnaðarfulla yfirlýsingu „Sameiginleg stefna sveitarfélaga á Vestfjörðum í umhverfislegu og félagslegu tilliti“ sem Súðavíkurhreppur er hluti af og var undirrituð 2017.

 

Áhugavert er að velta fyrir sér hvernig öll fögru fyrirheitin samræmast starfsemi á Garðstöðum í Ögurvík sem er hluti Súðavíkurhrepps. Í tillögu að aðalskipulagi Súðavíkurhrepps er lagt til að jörðin Garðstaðir verði gerð að iðnaðarsvæði til að koma til móts við vilja umráðamanns jarðarinnar sem þar hefur rekið mengandi starfsemi án tilskilinna leyfa um langt árabil. Með breytingu á skipulagi verði  honum gert kleift að festa endanlega í sessi starfsemi sína sem byggir á ruslasöfnun á jörðinni. Starfsemin á Garðstöðum hefur alla tíð verið utan við starfsleyfi og mengunarvarnir og er verulega mengandi.  Áætluð aðgerð er í algjöru ósamræmi við meginmarkmið aðalskipulags og stenst ekki lög. Tillagan er á skjön við þá umhverfisvitund sem hæfir nútíma samfélagi, passar ekki því sveitarfélagi og íbúum sem vilja ganga í takt við samtíma sinn. Með samþykkt tillögunnar yrði fjöður dregin yfir ljóta og langa sögu mengandi starfsemi sem hefur viðgengist án starfsleyfa og mengunarvarna. Þjónkun við slíkan málstað er ekki réttlætanleg og er nú mál að linni meðvirkni með starfsemi sem mengar umhverfið og spillir sameiginlegri markaðssetningu Vestfjarða.

 

Ruslasöfnun á Garðstöðum hefur staðið yfir með skipulögðum hætti allt frá árinu 1997 og vaxa umsvif og hrikaleg ásýnd staðarins ár frá ári. Mikil vakning í umhverfisvitund íbúa hefur orðið á liðnum áratugum, vonandi líka hjá sveitarstjórn Súðavíkurhrepps og í öðrum sveitarfélögum Vestfjarða. Það fólk sem heldur um stjórn Súðavíkurhrepps í dag verður ekki sakað um aðgerðarleysi fortíðarinnar, ber hins vegar í dag ábyrgð á nútíð og framtíð og grípur vonandi til viðeigandi aðgerða í nafni umhverfisverndar og fagurra fyrirheita í nafni Vestfjarða sem samfélags.

 

Guðmundur Halldórsson frá Ögri

DEILA