Gera alvarlegar athugasemdir við embættisfærslur Heilbrigðisnefndar Vestfjarða

Eigendur jarðarinnar Ögurs og ferðþjónustufyrirtækisins  Ögurferða í Súðavíkurhreppi gera alvarlegar athugasemdir við embættisfærslur og aðgerðir heilbrigðisnefndar og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða vegna ólögmætrar og stórfelldrar mengandi starfsemi á Garðstöðum í Súðavíkurhreppi síðastliðin 22 ár.

Bréf eigendanna verður tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Vestfjarða í dag. Afrit af bréfinu var sent á sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum, formenn umhverfisnefnda í vestfirskum sveitarfélögum, formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu, aðstoðarmenn umhverfisráðherra, aðstoðarmann samgöngu -og sveitarstjórnaráðherra, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Samkeppniseftirlitið auk þingmanna Norðvesturkjördæmis.

Í bréfinu segir að „undanfarin 22 ár hafa eigendur Ögur reynt, án nokkurs sjáanlegs árangurs, að vekja athygli nefndarinnar á stórfelldri söfnun bílhræja, brotamálma, spilliefna, dekkja o.fl. á Garðstöðum. Mengun á svæðinu er vaxandi og hvorki starfsleyfi né mengunarvarnir til staðar. Eigendur Ögurs telja að alls ekki eigi að heimila leyfisveitingar á Garðstöðum vegna áhrifa á nærumhverfi og stjórnvöldum beri að beita öllum þeim ráðum sem heimil eru skv. lögum til að stöðva og hreinsa mengun á staðnum.“

Eigendur Ögurs, sem hafa áratugum saman reynt að vekja Súðavíkurhrepp, heilbrigðisnefnd Vestfjarða og HEVF til meðvitundar um ástandið á Garðsstöðum, líta á  tillögu sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps um breytingu þá á aðalskipulagi hreppsins að skilagreina Garðstaði sem iðnaðarsvæði, sem tilraun til að sópa vandanum endanlega undir teppið og fela getuleysi og vanhæfi sömu aðila til að leysa mengunarvandann.

Gagnrýnt er aðgerðarleysi heilbrigðisnefndarinnar um langt árabil og bréfritarar  telja ástæðu til að efast um heilindi heilbrigðisnefndar Vestfjarða hvað varðar afgreiðslu umrædds máls og telja staðfastan ásetning að hunsa kvartanir varðandi Garðstaði.

beint er tólf spurningum til heilbrigðisnefndarinnar þar sem spurt er m.a. hvort það sé stefna heilbrigðisnefndarinnar að starfsemi sú sem er á Garðstöðum verði áfram rekin í skjóli nefndarinnar og verði ekki látin lúta sömu reglum og lögum og aðrir staðir á starfssvæði nefndarinnar.

Einnig er spurt hversu margar kvartanir nefndinni hefur borist vegan bílhræja í einstöku sveitarfélögum á Vestfjörðum, hversu margar kvartanir þurfi að berast til þess að nefndin bregðist við , hver sé stjórnsýslulegur ferill slíkra erinda.

Þá er spurt um leyfisveitingar vegna áramóta-/þrettándabrenna á Garðstöðum undanfarin ár og veittar undanþágur frá undirbúningstíma, brennutíma og efnivið brenna.

DEILA