Garðsstaðir : 600 -700 bílhræ og stöðugt vaxandi

Frá flutningi Guðnýjar ÍS inn að Garðstöðum í apríl 2019. Mynd: Björgunarfélag Ísafjarðar.

Hafliði Halldórsson frá Ögri telur að 600 – 700 bílhræ séu á Garðsstöðum og stöðugt aðstreymi sé af alls konar úrgangi víðs vegar að, þar með talið utan Vestfjarða. Hafliði sagðist telja að fyrir rúmum 20 árum hafi verið um 30 bílhræ á Garðsstöðum en svo hafi þeim fjölgað mjög hratt og stöðugt bætist við.  Hafliði er í forsvari fyrir eigendur að Ögri og ferðaþjónustunni þar og hefur ritað bréf til Heilbrigðisnefndar Vestfjarða og sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við söfnun á Garðstöðum og áform sveitarstjórnar um breytingu á aðalskipulagi hreppsins þar sem á Garðstöðum er landbúnaðarsvæði breytt í iðnaðarsvæði.

Hafliði segir að setja þurfi mörk á söfnunina annars muni ruslahaugurinn sem er á Garðstöðum stöðugt vaxa. Hann segir að rökstuddur grunur sé uppi um að fyrirtæki, þar á meðal á Vestfjörðum, sjái sér hag í því að losna við efni og annan úrgang á ódýran hátt með því að koma því inn í Djúp. Meðal annars flutti Björgunarfélag Ísafjarðar í vor bátinn Guðný ÍS inn að Garðstöðum. Talið er að brenna eigi bátinn þar.

Heilbrigðisnefnd Vestfjarða ræddi erindi Hafliða Halldórssonar á fundi sínum á föstudaginn og frestaði umræðu um það til næsta fundar, sem ráðgerður er fyrir áramót.

Heilbrigðisnefnd og starfsmönnum Heilbrigðiseftirlitsins er ljós sú nauðsyn á umræðu um umhverfismál er fram koma í erindi eigenda Ögurs. Augljóslega gætir töluverðs miskilnings er fram kemur í erindum eigenda Ögurs sem borist hafa eftirlitinu undanfarið. Ljóst er að viðfangsefnið er flókið úrlausnar og er fyrst ogfremst á forræði sveitarfélaga við Djúp. Vegna þessa er frekari umræðu um málið frestað til næsta fundar.“

Á fundinum veitti nefndin leyfi fyrir þrettándabrennu á Garðstöðum, tímabundið til 4. jan. 2020.

DEILA