Fiskeldið langstærst á Vestfjörðum

Frá Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Launagreiðslur fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum losuðu 1 milljarð króna á síðasta ári. Um þriðjungur allra atvinnutekna af fiskeldi féll til á Vestfjörðum.  Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum, sem birt var á föstudaginn. Umfang fiskeldisins er langmest á Vestfjörðum. Næstmest er það á Suðurnesjum og svo á Höfuðborgarsvæðinu. Vöxturinn síðustu ár hefur fyrst og fremst átt sér stað á Vestfjörðum í sjókvíalaxeldi og fyrirsjáanlegt að á næstu árum mun áfram verða mikill uppgangur í laxeldinu á Vestfjörðum. Þá er framleiðslan á Austfjörðum að komast af stað.

 

892 milljónir króna á sunnanverðum Vestfjörðum

Fram kemur í skýrslunni að 892 milljónir króna af 1.044 milljónum króna sem fiskeldi greiddi í atvinnutekjur 2018 á Vestfjörðum féll til á sunnanverðum Vestfjörðum. Árið 2008 voru atvinnutekjurnar af fiskeldinu á þessu svæði aðeins 62 milljónir króna. Vöxturinn hefur verið gríðarlegur á þessum tíu árum.Aukningin í fiskeldinu er 829 milljónir króna og gerir meira en að vinna upp allan samdrátt í atvinnutekjum af fiskveiðum og fiskvinnslu 551 milljón króna á tímabilinu frá 2018 til 2018.

Atvinnutekjur í Barðastrandasýslu og Strandasýslu til samans jukust um 1,2 milljarð króna til 2008 til 2018 eða nærri 20%. Hefði aukið fiskeldi ekki komið til hefði atvinnutekjurnar staðið í stað í krónutölu sem hefði jafngilt nokkrum samdrætti í rauntekjum að teknu tilliti til verðbólgu á tímabilinu. Hafa ber í huga að aukningin vegna fiskeldisins kemur öll til í Vestur Barðastrandasýslu og veldur þar umtalsverðum efnahagslegum framförum. Þessara áhrifa hefur ekki gætt í Reykhólasveit og í Strandasýslu.

Atvinnutekjur af stjórnsýslu og almannatryggingum í Barðastranda- og Strandasýslum voru hæstar 972 m.kr., næst komu fiskveiðar með 913 milljónir króna og fiskeldið var í þriðja sæti með 892 milljónir króna eins og fyrr segir.

DEILA