Félagamálaráðherra í heimsókn í Súðavík

Gísli Jón Kristjánsson, Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Hrafnshóla ehf. kynntu fyrirhugaða uppbyggingu fyrir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Mynd: aðsend.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra gerði sér ferð til Súðvíkur í gær ásamt aðstoðarmanni sínum Arnar Þór Sævarssyni.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri sagði að þeir hefðu skoðað  byggingarstað þar sem hafin er bygging íbúðarhúsnæðis. „Ásmundur Einar Daðason tók aðeins til hendinni og tók í bæði valtrara og gröfu Tígurs ehf. sem sér um að taka grunn og gera klárt fyrir steypu og síðar uppsetningu eininga.“

Boðið var í kaffispjall í Álftaveri – fundarsal Súðavíkurhrepps þar sem farið var yfir mál sem varða hreppinn. Að sögn Braga Þórs fór vel á með mannskapnum og ráðherra vel inn í málefnum byggðarlagsins. „Við ræddum réttilega þau mál sem snúa helst að Súðavíkurhreppi, svo sem samgöngumál, aðföng með rafmagn og atvinnuuppbyggingu.

Ráðherrra og föruneyti var svo boðið í Sætt & salt ehf. þar sem hann kynnti sér súkkulaðiframleiðslu með meiru.“

Hrafnshóll ehf. mun standa að íbúðabyggingunni  í samvinnu við hreppinn, en málið hefur fengið talsverða kynningu og umræðu í hreppnum frá í sumar. Þannig mun Súðavíkurhreppur kosta byggingu þriggja íbúða, 3ja og 4ja herbergja, þar sem stærri íbúðirnar eru um 90 fermetrar. Mun Hrafnshóll ehf. eiga og reka aðrar tvær íbúðir í óhagnaðardrifnu leigufélagi. Stofnað verður félag um rekstur og ráðstöfun húsnæðisins sem byggðar eru fyrir Súðavíkurhrepps, en hreppurinn verður aðaleigandi Fasteignafélags Súðavíkuhrepps. Þannig eru einingarnar sérsniðnar að því verkefni sem varðar uppbyggingu á landsbyggðinni með aðkomu Íbúðalánasjóðs; húsnæðis sem fellur að þeirri reglugerð sem kynnt var í haust um uppbyggingu á svolkölluðum köldum svæðum á landsbyggðinni.

„Stefnt er að því að tvær af þeim íbúðum, sem eru nú í byggingu, muni gegna sambærilegu hlutverki og húsnæði í eigu Súðavíkuhrepps á Hlíf II í Torfnesi á Ísafirði. Þannig verði eldri íbúum hreppsins, sem kjósa að minnka við sig eða komast í hentugt húsnæði, gert kleyft að búa hér í Súðavík í stað þess að flytjast á Ísafjörð í annað byggðarlag. Íbúðir verði þó leigðar á almennum markaði ef eftirspurn verður ekki til staðar af eldri íbúum. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að íbúðirnar verði seldar ef eftirspurn verður, en stefnt er að því að eiga amk alltaf tvær íbúðir fyrir eldriborgara auk félagslegs húnsæðis eftir þörfum“ segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps.

Ásmundur Einar hefur haft forgöngu um að breyta útlánareglum Íbúðalánasjóðs ásamt fyrrnefndri reglugerð en hvoru tveggja er ætlað að stuðla að uppbyggingu á köldum markaðssvæðum á landsbyggðinni. „Það er ánægjulegt að sjá áhrifin vera raungerast á stöðum þar sem lítið sem ekkert hefur verið byggt árum og áratugum saman þrátt fyrir að eftirspurn sé til staðar,” sagði Ásmundur Einar þegar hann kynnti sér aðstæður.

 

 

DEILA