Drangsnes: búðinni lokað síðasta föstudag – ný búð á morgun

Á föstudaginn  lokaði Kaupfélag Steingrímsfjarðar útibúi sínu á Drangsnesi. Af því tilefni komu  íbúar Kaldrananeshrepps saman í kaupfélagshúsinu og þökkuðu  fyrir samfylgdina með Kaupfélaginu með gleði, söng og léttum veitingum.

Kaldrananeshreppur hefur keypt húseignina af kaupfélagi Steingrímsfjarðar. Verslunarfélag Drangsness ehf mun fá styrk til reksturins frá Byggðastofnun 4,8 milljónir króna sem greiðist út á tvemur árum 2020 og 2021.

Á staðnum gafst einnig færi á að skrá sig fyrir stofnfé í nýju verslunarfélagi sem opnar nýja verslun í sama húsi á morgun, miðvikudag.

Gunnar Jóhannsson, Hveravík er stjórnarformaður hins nýja verslunarfélags sagði í samtali við Bæjarins besta að vöruúrval yrði minna en var en  komið yrði upp kaffiaðstöðu í búðinni þar sem hægt yrði að horfa út yfir Steingrímsfjörðinn. Hugmyndin væri að kanna þróun á netverslun og að verlsunarfélagið tæki að sé að taka við sendingum til afhendingar. Gunnar sagðist telja að netverslun myndi mjög færast í aukana, sérstaklega í dreifbýlinu. Gunnar sagðis vera bjartsýnn á gott gengi verslunarinnar.

Myndir: Bjarni Þórisson.

Þessar konur hafa allar unnið í búðinni um lengri eða skemmri tíma.

 

DEILA