Árneshreppur: samþykkt að hefja aðal- og deiliskipulagsbreytingar vegna Hvalárvirkjunar

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum fyrir jól  að hefja vinnu við breytingar á Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025 vegna Hvalárvirkjunar, en gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir frekari breytingum á skipulagsáætlunum vegna virkjunarinnar og fól skipulagsfulltrúa það.

Fyrir fundinu lá erindi, dags. 22.11.2019, frá VesturVerki ehf. þar sem óskað var eftir að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Árneshrepps 2005 – 2025 vegna Hvalárvirkjunar.

Í bókun hreppsnefndar segir að drög að skipulags- og matslýsingu fyrir skipulagsverkefnið,
sbr.30.grein skipulagslaga og lögum um umhverfismat áætlana skuli lögð
fyrir skipulagsnefnd. Gert verði ráð fyrir að lýsingin verði sameiginleg fyrir deiliskipulagsgerð vegna Hvalárvirkjunar.

Lögum samkvæmt ber framkvæmdaraðili bera kostnað vegna aðalskipulagsbreytinganna.

Þá var á sama fundi afgreitt erindi VesturVerks ehf , þar sem óskað var eftir heimild að vinna deiliskipulag vegna Hvalárvirkjunar.

Hreppsnefnd samþykkti erindi VesturVerks ehf. og þá í samræmi við sameiginlega skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulagstillögu og breytinga á aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025, eins og tekið er fram í samþykktinni um aðalskipulagsbreytingarnar.

Endanleg afgreiðsla heimildarinnar fer fram þegar skipulags- og matslýsing liggur fyrir, segir í bókun hreppsnefndar Árneshrepps.

DEILA