Kiwanis gefur sjónvarp

Leikskólastjóri veitir gjöfinni viðtöku. Myndir: aðsendar.

Félagar í Kwanisklúbbnum Básar komu færandi hendi á Leikskólann Eyrarskjól nú nýlega. Færðu þeir börnunum og starfsfólki 65″ sjónvarpstæki ásamt veggfestingu og viðbótar hátölurum.

Guðríður Guðmundsdóttir leikskólastjóri tók við gjöfinni og sagði við það tækifæri að tækið myndi koma að góðum notum í leikskólastarfinu. Nú gætu börnin horft á stórum skjá margvíslegt efni, t.d. upptökur úr sólastarfinu. Jafnframt gæti þetta nýst við fræðslustarf til handa starfsmönnum. Börnin voru að vonum glöð með gjöfina og þökkuðu fyrir sig því að syngja nokkur jólalög fyrir Kiwanismenn.

Að sögn Kristjáns A. Guðjónssonar kjörforseta er það fyrst og fremst góður stuðningur fólks og fyrirtækja hér á svæðinu sem gerir það kleift að Kiwanisklúbburinn geti látið gott af sér leiða. „Meginmarkmið Kiwanismanna er að styðja við börnin og því var ákveðið að færa börnum leikskólanna á okkar svæði gjafir. Á næstunni verður farið í fleiri skóla og þeim færðar gjafir. Eins og áður sagði er það fyrst og fremst góður stuðningur við fjáraflanir okkar sem gerir þetta mögulegt. Okkar aðalfjáraflanir eru sviðaveisla að hausti og sjávaréttaveisla að vori. Sviðaveislan okkar í haust tókst mjög vel og er meðal annars afrakstur hennar að skila sér núna til barnanna.“

Að lokum má árétta það að nýir félagar eru velkomnir í Kiwanis. Þar gefst mönnum færi á góðum félagsskap og geta jafnframt látið gott af sér leiða.

 

DEILA