Votlendissjóður: endurheimt votlendis að frumkvæði landeigenda

Þær jarðir sem Votlendissjóður er að endurheimta núna og stendur til að endurheimta á næstunni koma inn til Votlendissjóðs að frumkvæði landeigenda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Votlendissjóði.

Í framhaldi eru jarðirnar mældar og teknar út, bæði af sérfræðingum á vegum Votlendissjóðs og svo aftur og mun ítarlegar af Landgræðslunni. Þegar Landgræðslan hefur staðfest að jarðirnar séu hæfar til endurheimtar hefst hið verklega ferli. Undanfari verklegra framkvæmda er því í flestum tilfellum ár eða lengra.

Lögð er áhersla á í fréttatilkynningunni að endurheimt votlendis á Íslandi er unnin eftir leiðsögn og leiðbeiningum okkar fremstu sérfræðinga og vísindamanna. „Þannig er Votlendissjóður í samstarfi við og nýtur leiðsagnar sérfræðinga frá Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólanum. Þá er Votlendissjóður með sérstakt fagráð sem leitað er til með verkefni sjóðsins. Í fagráðinu sitja aðilar frá Náttúrufræðistofnun, Rannsóknasetri HÍ á Suðurlandi, Landgræðslunni, Arkitektafélagi Íslands og verkfræðistofunni Eflu.“

Í stjórn sjóðsins sitja valdir einstaklingar með yfirgripsmikinn bakgrunn í landgræðslu, verkfræði, stjórnsýslu og umhverfisvernd. Þá er sjóðurinn í góðu samstarfi við stofnanir í náttúruvernd samanber Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Fuglavernd, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands og RSBP (hin konunglegu fuglaverndunarsamtök Bretlands) svo eitthvað sé nefnt. Þá er verndari sjóðsins forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. 

Votlendissjóðurinn er sjálfseignastofnun sem er fjármögnuð af einstaklingum og fyrirtækjum með ríka samfélagsábyrgð. Votlendissjóðurinn hefur engar fyrirfram gefnar heimildir til neinna framkvæmda hvorki í landi einkaaðila né opinberra. Fyrir framkvæmdum þarf að liggja fyrir skýrt leyfi og ríkur vilji viðkomandi landeigenda.

Að lokum segir í fréttatilkynningunni að „hlýnun jarðar og afleiðingar hennar eru alvarlegustu áskoranirnar sem heimurinn stendur frammi fyrir. Endurheimt votlendis í víðtæku samráði, eins og Votlendissjóður stendur að, er ein fárra lausna sem eru færar og gerlegar núna og gefa okkur Íslendingum tækifæri á smá bjartsýni í málaflokki þar sem svartnætti og vonleysi á sér marga talsmenn.“

 

DEILA