Vestri knattspyrna : Breytingar á leikmannahóp

Samúel Samúelsson og Heiðar Birnir Torleifsson.

Frá því er greint á vefsíðu Vestra að fjórir leikmenn félagsins í knattspyrnu hafi yfirgefið félagið og gengið til liðs við önnur félög. Eru það leikmennirnir Þórður Gunnar Hafþórsson,   Josh Signey, Páll Sindri Einarsson og Hákon Ingi Einarsson.

Í þeirra stað eru komnir Senegalinn Sall Radical og serbneski framherjinn Vladimir Tufegdzic.

Vinstri bakvörðurinn Hammed Lawal hefur framlengt samning sinn við Vestra, svo og markvörðurinn Robert Blakala.

Bjarni Jóhannsson verður áfram aðalþjálfari liðsins, en Vestri hefur ráðið til sín nýjan aðstoðarþjálfara fyrir næsta tímabil í Inkasso. Ísfirðingurinn Heiðar Birnir Torleifsson hefur verið ráðinn til starfa og tekur hann við af Jóni Hálfdáni Péturssyni.

Heiðar þjálfaði á síðasta tímabili Sandoyar Ítróttarfelag B71 í Færeyjum.

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnudeildar Vestra sagðist vera nokkuð bjartsýnn fyrir komandi leiktímabil en þá leikur Vestri í næstefstu deild, Inkasso deildinni eftir að hafa  orðið í 2. sæti 2. deildar í sumar. Samúel sagðist vonast eftir því heimamenn muni gegna auknu hlutverki næsta sumar, efniviðurinn væri vissulega fyrir hendi.

DEILA