Vestfirska hagkerfið er 35 milljarðar króna að stærð

Frá Tálknafirði.

Efnahagsumsvifin á Vestfjörðum voru 35 milljarðar króna samkvæmt gögnum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna 2012-2017 er byggð á.

Hagfræðistofnunin reiknar svonefndar vergar þáttatekjur landsins og skiptir þeim á einstök landssvæði. Vergar þáttatekjur eru verg landsframleiðsla, það er verðmæti allrar framleiðslu á landinu hverju nafni sem nefnist. Undir framleiðslu fellur í þessum skilningi ekki bara framleiddar vöru heldur einnig þjónusta sem veitt er bæði á markaði og hjá hinu opinbera svo sem skólar, heilbrigðisþjónusta o.frv. Verg landsframleiðsla er leiðrétt fyrir áhrifum óbeinna skatta og styrkja og þá fást vergar þáttatekjur.

Vergar þáttatekjur eru nokkurn vegin sama stærð og samanlögð laun og tengd gjöld að viðbættum rekstrarafgangi fyrirtækja og hins opinbera.

Samkvæmt gögnunum eru Vestfirðir með minnsta svæðisbundna hagkerfið þar sem Norðurland vestra er aðeins stærra.

Hagvöxtur -6% 1998-2017

Í skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að á 19 ára tímabili 1998 – 2017 varð hagvöxtur 75%. Mikil misskipting varð á hagsvextinum eftir landshlutum: Á Suðurnesjum varð 100% hagvöxtur á þessum 19 árum, 90% á Austurlandi og 89% á höfuðborgarsvæðinu. Á Norðurlandi vestra varð hagvöxturinn neikvæður um 2% og um 6% á Vestfjörðum.  Á Suðurlandi varð 58% hagvöxtur, á Vesturlandi 42% og á Norðurlandi eystra 28%.

Vantar 30 milljarða króna

Vestfirska hagkerfið hefði stækkað um 75% ef þar hefðu orðið sömu áhrif og á landinu öllu. Hefði það gengið eftir hefðu vergar þáttatekjur 2017 á Vestfjörðum orðið 65 milljarðar króna í stað 35 milljarða króna.

Fiskeldið stækkar hagkerfið

Í skýrslunni má sjá að fyrirsjáanleg aukning verður í laxeldinu á Vestfjörðum frá 2017. Á þessu ári má ætla samkvæmt heimildum Bæjarins besta að framleiðslan verði um 35% meiri en hún var 2017 og komi til með að aukast á næstu tveimur árum um þriðjung og verður þá um 80% meiri en 2017. Gangi það eftir gæti vestfirskar vergar þáttatekjur aukist um 10% frá því sem það var 2017.

DEILA