Útflutningur eldisafurða: hátt í 40% aukning m.v. september

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 1.400 milljónum króna í september samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær. Þetta er nokkuð hægari aukning en verið hefur það sem af er ári en engu að síður veruleg, eða um 38% á milli ára og hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei áður verið meira í septembermánuði. Gengi krónunnar var að jafnaði ríflega 7% veikara í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra miðað við gengisvísitölu krónunnar. Er því um að ræða 28% aukningu í verðmætum í erlendri mynt.

þetta kemur fram í fréttabréfi SFS í gær.

Stóraukin framleiðsla á eldislaxi skýrir aukninguna

Á fyrstu 9 mánuðum ársins nemur útflutningsverðmæti eldisafurða rúmlega 16,8 milljörðum króna. Á sama tímabili í fyrra var útflutningsverðmæti eldisafurða komið upp í rúma 9,6 milljarða króna og nemur aukningin í krónum talið á milli ára 75%. Að teknu tilliti til gengisáhrifa nemur aukningin rúmlega 56%.

Það er stóraukin framleiðsla á eldislaxi sem skýrir þessa aukningu og er útflutningsverðmæti lax 90% meira á fyrstu 9 mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

DEILA