Þingmaður spyr: Fær HS Orka tengingu Hvalárvirkjunar frítt?

Guðmundur Andri Thorsson, alþingismaður.

Guðmundur Andri Thorsson, alþingismaður bar fram þá fyrirspurn á Alþingi til Þórdísar Gylfadóttur, iðnaðarráðherra hvort  ráðherra hyggðist „beita sér fyrir því að reglugerðarheimild verði nýtt til að fella niður lögbundið kerfisframlag HS Orku, eiganda Vesturverks, til Landsnets vegna hugsanlegrar tengingar mögulegrar Hvalárvirkjunar á Ströndum?“

Ekkert frítt

Í svari ráðherrans segir að ekki sé að finna í 3. gr. reglugerðar nr. 841/2016, um breytingu á reglugerð nr. 1040/2005, um framkvæmd raforkulaga heimild til að fella niður lögbundið kerfisframlag.

„Hins vegar heimilar reglugerðin flutningsfyrirtækinu að miða við áætlun um hærra hlutfall tekna við útreikning kerfisframlags, m.a. ef um er að ræða fyrstu tengingu vinnsluaðila á nýju svæði. Framkvæmd reglna um kerfisframlag er í höndum Landsnets samkvæmt eftirliti Orkustofnunar og ráðherra hefur ekki aðkomu að því.“

Virkjunin greiðir kostnaðinn

Í svarinu er upplýst að  aukinni innmötun, sem fylgir því að tengja nýja virkjun við flutningsnetið,  fylgja auknar flutningstekjur Landsnets og „nýleg greining Landsnets, miðuð við 55 MW uppsetta aflgetu [sem er framleiðslugeta Hvalárvirkjunar] , bendir til að tengigjald og auknar flutningstekjur standi undir kostnaði við slíka tengingu.“

Samkvæmt þessum svörum er ljóst að ekki stendur annað til en að Hvalárvirkjun greiði kostnað við tengingu við raforkunetið og þá er talið  að gjöldin standi undir kostnaði við tenginguna, þar með talið tengipunkt i Ísafjarðardjúpi.

Engin tæknileg vandkvæði

Guðmundur Andri Thorsson spyr til viðbótar hvort ráðherrann telji tæknilega forsvaranlegt að reka raflínu á leiðinni frá Steingrímsfjarðarheiði til Ísafjarðar fyrir þann raforkuflutning sem fyrirsjáanlegur er vegna vatnsaflsvirkjana á Ófeigsfjarðarheiði.

Ráðherrann segir í svari sínu að tengipunktur í Ísafjarðardjúpi sé forsenda raforkuflutninganna en að tæknilega sé ekkert því til fyrirstöðu að leggja slíka línu. „Núverandi lína frá Mjólká um Breiðadal í Ísafjörð er að mestu reiðubúin til spennuhækkunar í 132 kV og tenging úr Djúpi til Ísafjarðar á því spennustigi byggi til hring með góða flutningsgetu.“

 

 

DEILA