Þingeyri: vilja flotbryggju fyrir víkingaskipið Véstein

Víkingaskipið Vésteinn. Mynd: siglfirdingur.is

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur fengið ósk um flotbryggju fyrir fyrir farþegasiglingar á Þingeyri.  Það er meinningarfélagsskapurinn Víkingar á Vestfjörðum sem hafa áform um að koma upp reglulegum siglingum með farþega á Víkingaskipinu Vésteini í Dýrafirði næsta sumar. „Flotbryggja til að taka við farþegum er nauðsynleg forsenda þess. Það er því okkar ósk að slík flotbryggja á Þingeyri verði á fjárhagsáætlun Ísafjarðarhafnar fyrir 2020.“ segir í erindinu.

Fram kemur í bréfi menningarfélagsins að í ljós hafi komið að engin hafnaraðstaða er boðleg á Þingeyri. Ein stutt flotbryggja er í höfninni og er hún þéttsetin fiskibátum.

Í bréfinu stendur:

„Siglingar á Vésteini er einstök ferðaþjónusta af menningarlegum og umhverfislegum
ástæðum. Hvergi annars staðar á Íslandi getur ferðafólk siglt á Víkingaskipi. Það er ótrúlegt
því siglingatækni landnámsmanna er ástæða þess að til Íslands kom landnámsfólk og að hér var lífvænlegt frá 9. öld og langt fram á miðaldir. Sigling Vésteins er því leið til að viðhalda og miðla mikilvægum menningararfi. Sigling á Vésteini er einnig umhverfisvæn. Vésteinn er seglskip sem notar lítinn utanborðsmótor til að komast inn og út úr höfnum og ef vindar er óhagstæðir.“

Bæjarráð fól hafnarstjóra að kanna hvort ekki megi finna aðra lausn á árinu 2020 en að gera nýja flotbryggju þar sem ekki er gert ráð fyrir bryggjunni í fjárfestingaráætlun 2020.

DEILA