Tálknafjörður: gefa ekki frekari skýringar

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Ekki fást frekari skýringar á því hvers vegna Bryndís Sigurðardóttir lét af störfum sem sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps en þær sem gefnar eru á vefsíðu sveitarfélagsins. þar stendur að á fundi sveitarstjórnar á fimmtudagskvöldið hafi verið tekin sameiginleg ákvörðun um að leiðir lægu ekki lengur saman og samið var um starfslok. Bryndís hefur þegar látið af störfum. Sveitarstjórn mun hafa staðið einhuga að málalyktunum.

Bjarnveig Guðbrandsdóttir, oddviti vildi ekki veita frekari skýringar en staðfesti að fráfarandi sveitarstjóri fengi þriggja mánaða laun án vinnuframlags. Bjarnveig sagði að farið yrði fljótlega að leita eftir nýjum sveitarstjóra. Lilja Magnúsdóttir, sveitarstjórnarmaður E listans vildi heldur ekki veita frekari skýringar. Ekki náðist í Bryndísi Sigurðardóttur.

Bæjarins besta hefur leitað víðar eftir skýringum og er helst vísað til samstarfsörðugleika milli sveitarstjóra og einstakra sveitarstjórnarmanna, en það hefur ekki fengist staðfest.

DEILA