Súðavík: kalkþörungaverksmiðjan hefur tafist um tvö ár

Áform Íslenska kalkþörungafélagsins ehf um nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík eru óbreytt og undirbúningur er í fullum gangi. Ekki er annað fyrirsjáanlegt annað en að félagið fái starfsleyfi frá Orkustofnun á næsta ári.

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri íslenska kalkþörungafélagsins segir ekkert óvænt hafi komið upp við undirbúning málsins annað en það að ríkisstofnanir sem þurfa að fjalla um leyfisumsókn hafa tafið málið verulega með seinagangi. Upphaflega var gert ráð fyrir að verksmiðjan tæki til starfa síðla árs 2020 en Halldór segir að nú sé framgangur málsins a.m.k. 2 árum seinna á ferðinni.

í dag rennur út frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaðar aðal- og deilskipulagsbreytingar Súðavíkurhrepps vegna verksmiðjunnar og gerir Halldór ráð fyrir að þessum þætti verið lokið í mars 2020. Uppfærð matsskýrsla frá til Skipulagsstofnunar í október 2019 og nú er beðið eftir því Skipulagsstofnun afgreiði skýrsluna. þá verður hægt að sækja um starfsleyfi til Orkustofnunar. Halldór vonast til þess að í mars/apríl 2020 hilli undir starfsleyfið og þá verði farið í að gera samning við Súðavíkurhrepp varðandi framkvæmdir varðandi höfnina.

Verksmiðjan mun sækja og vinna kalkþörungaset úr Ísafjarðardjúpi og þurrka í mjöl og aðrar afurðir í um 4000 fermetra verksmiðju í Súðavík og flytja til markaða á meginlandi Evrópu og í Miðausturlöndum. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður um 120 þúsund tonn á ári. Stofnkostnaður er 3 – 5 milljarðar króna. Bein störf og þjónustuaðilar eru talin verða 35 – 50, en með öllum afleiddum áhrifum er talið að starfsemin skapi 90 störf.

DEILA