Arctic Fish: Stórahorn kemur í höfn

Tálknafjörður. Hvannadalur. mynd: Jónas Þrastarson.

 

Arctic Sea Farm tekur í dag á móti nýjum fóðurpramma í Tálknafirði og hefur hann hlotið heitið Stórahorn. Fóðurpramminn er sá þriðji sem fyrirtækið tekur í notkun á árinu en nú þegar eru fóðurprammar í Dýrafirði og Patreksfirði, eða þeir Mýrarfell og Molduxi.

Stórahorn er sérstaklega smíðaður fyrir krefjandi aðstæður eldissvæðis Arctic Sea Farm við Hvannadal í Tálknafirði. Er hann af gerðinni AC 600 PV og framleiddur af Akva Group í Eistlandi, búinn þremur vélum, einni 100 kW og tveimur 175 kW ásamt 33 tonna Palfinger krana. Pramminn tekur 600 tonn af fóðri, er með átta fóðursíló og getur þar með fóðrað átta kvíar samtímis og fær um að fóðra heil 5.400 kg á klukkustund. Innanborðs má síðan finna stjórnstöð, skrifstofu, vel búna starfsmannaaðstöðu og verkstæði.

Fóðurprammar Arctic Sea Farm gera starfsmönnum kleift að fylgjast náið með fóðurinntöku fisksins, er þess sérstaklega gætt að fiskurinn fái þá næringu sem hann þarf til að vaxa og dafna. Kemur slíkt verklag í veg fyrir umfram fóðrun og fellur því fóður síður á botn sjávar og er umhverfinu þannig haldið sem hreinustu. Með þessu er leitast við því að standast strangar kröfur umhverfisstaðalsins ASC og að viðhalda sjálfbærri og umhverfisvænni matvælaframleiðsu sem fiskeldið svo sannarlega er.

Stórahorn kemur í höfn í dag, þriðjudaginn 26. nóvember, og verður til sýnis fyrir gesti og gangandi milli klukkan 16 og 18. Nýbakaðar vöfflur og heitt á könnunni. Starfsfólk Arctic Fish verður á svæðinu og til í að spjalla og svara spurningum gesta og gangandi um núverandi starfsemi sem og framtíðarplön.

 

DEILA