Stjórnsýsluhúsið Ísafirði. nýtt loftræstikerfi kostar 86 milljónir króna

Nýtt loftræstikerfi í Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði kostar 86 milljónir króna samkvæmt áætlun frá Verkís í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fram í bæjarráði Ísafjarðarbæjar í vikunni. Kostnaðaráætlunin er  þó takmörkunum háð þar sem ekki liggur  fyrir hvernig skipulag framkvæmdanna verður segir í minnisblaðinu. Verkið er nánast tilbúið til útboðs.

Stjórnsýsluhúsið er 30 ára gömul bygging og loftræsisamstæður hafa ekki verið endurnýjaðar. Starfsmenn hafa kvartað yfir þurru og þungu lofti og takmörkuðum leiðum til að auka loftgæði. Starfsmenn hafa einnig kvartað yfir sárindum í hálsi, augum, húð o.fl. auk þess sem lykt úr eldhúsi dreifist út um allt hús samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaðinu.

Mælingar hafa verið framkvæmdar sem staðfesta að loftgæðin eru undir viðmiðunarmörkum. Enn fremur skal tekið fram að engin loftræsting er í þeim hluta húsnæðisins er hýsir velferðarsvið.

Í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019 var gert ráð fyrir 10 milljónum króna í
loftræstikerfi í Stjórnsýsluhúsinu. Ísafjarðarbær á um 30% af húsnæðinu í Stjórnsýsluhúsinu. Miðað við það er hlutur Ísafjarðarbæjar 26 milljónir króna af 86 milljóna króna kostnaði.

Bæjarráð vísaði framkvæmdinni til fjárhagsáætlunargerðar 2020.

DEILA