Stafræna umbreytingin: að sjá tækifæri frekar en ógnanir

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 29. nóvember, sem er jafnframt það síðasta í ár, munu Linda Randall og Mari Wøien Meijer frá Nordregio, rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar, fjalla um þau margvíslegu áhrif sem stafræn umbreyting hefur á hagkerfi, stjórnsýslu og samfélag okkar. En nákvæmlega hvað er stafræn umbreyting? Hvaða áhrif hefur hún á daglegt líf okkar? Á störf okkar? Á staðina þar sem við búum? Og, ef til vill mikilvægast, hvernig getum við nýtt okkur tækifærin sem henni fylgja? Í erindi sínu mun Linda velta þessum spurningum fyrir sér með dæmum úr þremur mismunandi rannsóknarverkefnum Nordregio. Frekari upplýsingar er að finna í fréttatilkynningu á ensku.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10. 

Í framhaldi af Vísindaportinu stendur Vestfjarðastofa fyrir vinnustofu þar sem fyrirtæki og stofnanir fá tækifæri til að ræða þá möguleika sem fylgja stafrænum umbreytingum, sjá Vinnustofa – Stafræn umbreyting á Vestfjörðum.  

Nordregio, rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar er alþjóðleg rannsóknarmiðstöð á sviði byggðaþróunar og -skipulags. Sinnir stofnunin rannsóknum sem snúa að byggðaþróun, svæðisbundinni nýsköpun, fólksflutningum, stafrænni þróun, borgarskipulagi og málefnum norðurslóða. Frekari upplýsingar hjá Nordregio.

Linda Randall er menntuð í félagsfræði og borgar- og svæðisskipulagi og hefur hún komið að fjölbreyttum verkefnum og rannsóknum sem snúa meðal annars að svæðisbundinni þjónustu og stefnugreiningu. Í sínum rannsóknum hefur Linda einkum áhuga á borgar- og svæðisskipulagi, umskiptum í samfélaginu, samfélagslegri þátttöku og atvinnumarkaðinum.  

Mari Wøien Meijer sinnir rannsóknum á sviði félagsvísinda og hefur hún bakgrunn í alþjóðasamskiptum og lífhagkerfi. Hún hefur starfað í lífeldisneytisiðnaði og hefur í sínum rannsóknum sérstakan áhuga á þáttum sem varða þá áhættu og óvissu sem reglugerðir geta haft á nýsköpun í lífhagkerfinu, auk viðfangsefna sem snúa að stjórnunarháttum og breytingum í hinu pólitíska umhverfi. 

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku. Allir velkomnir.

DEILA