Sóknaráætlun Vestfjarða: fimm ára áætlun nr 2 – framlög lækka

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt fulltrúum landshlutasamtaka við undirritun samninga um sóknaráætlanir landshluta.

Í gær voru undirritaðir samningar um Sóknaráætlun landshlutana fyrir tímabilið 2020-24. Um er að ræða átta samninga og er einn þeirra við Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Grunnframlag ríkisins til samninganna allra árið 2020 nemur 716 milljónum króna en með viðaukum og framlagi sveitarfélaga nema framlög alls 929 milljónum króna.

Að sögn Sigríðar Ólafar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu er þetta annar fimm ára samningurinn sem er gerður. Fjármagn til samningsins er rétt um 90 milljónir króna á ári og nær til verkefna á sviði atvinnumála og menningarmála. Í nýja samningnum lækkar framlag ríkisins um 10 milljónir króna á ári. Skiptist fjármagnið þannig að 52 milljónir króna koma frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og 30 milljónir króna frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Sigríður sagði í samtali við Bæjarins besta að unnið yrði áfram að því að fá önnur ráðuneyti að samningunum.

Gildi samninganna er að heimamenn móta áherslur um ráðstöfun fjárins og annast úthlutun þess og segir Sigríður að það tryggi að fjármagnið fari til verkefna sem séu í samræmi við áherslur sem heimamenn hafi lagt í viðkomandi málaflokki. Hún segir afar brýnt að fá fleiri ráðuneyti að sóknaráætluninni svo hægt verði að veita fé til fleiri málaflokka.

DEILA