Sjónvarpspistill: Vestfirsk leikkona á heimsmælikvarða en…..

Á okkar góða landi má aldrei segja nei. Það orð er alla vega á hröðu undanhaldi þessi árin.  Aftur á móti á alltaf að segja já. Sama hvaða dellu er um að ræða.

Ríkisútvarpið okkar er að mörgu leyti ágætis stofnun. Rás 1, Gamla gufan, ber þar af eins og gull af eyri. Sennilega með bestu útvarpsstöðvum í heimi, ef ekki sú besta. Rás 2 er svosem ágæt líka að sumu leyti. En til hvers það opinbera, sem kallað er, á að vera í slíkum rekstri er ekki alveg borðleggjandi. Nóg virðist af slíkum stöðvum á vegum einkaaðila.

Nú, nú. Svo er það Ríkissjónvarpið okkar. Þar er oft ýmislegt. Fréttir, Kastljós, Kveikur, Silfrið og náttúrulífsþættir svo eitthvað sé nefnt af handahófi. Og stundum sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem hægt er að horfa á. Svo er líka takki á tækinu!

Það  varð á sunnudagskvöldið síðasta kl. 21,05 að sýndur var 5. þáttur í innlendri sjónvarpsþáttaröð og tekið fram að hann væri ekki við hæfi ungra barna eða eitthvað svoleiðis. Margir hafa lokið lofsorði á seríu þessa. Aðalleikkonan og handritshöfundur frábær, enda Vestfirðingur, ættuð úr Dýrafirði. Leikkona á heimsmælikvarða. Ekki margbrotnara.

Jæja. En nú skal það sagt umbúðalaust að þátturinn á hvíldardaginn síðasta var hvorki fyrir börn né fullorðna. Er þá mikið sagt. Það er eitthvað verulegt að þegar slíkt efni og þar var ítrekað borið á borð fer í sýningu í Sjónvarpinu okkar. Ekki annað að sjá en þetta væri einhverskonar óhapp eða slys. Þau gera ekki alltaf boð á undan sér. En í þetta skipti var það af fullkomlega ásettu ráði. Er í takt við það sem gildir á Íslandi í dag: Aldrei að segja nei. Já skal það vera. Spyrja verður: Er enginn eftirlitsmaður með efni, á útlensku Censor, á Sjónvarpinu okkar? Eða var kannski búið að klippa eitthvað út út umræddum þætti?

Auðunn vestfirski

DEILA