Sjávarafurðir hafa hækkað um 8,2% á árinu og 50% frá 2010

Verð á íslenskum sjávarafurðum hefur hækkað um 8,2% á fyrstu þremur fjórðungum ársins mælt í erlendri mynt. Til samanburðar hækkaði verðvísitala Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna á kjöti um 2,5% milli sömu tímabila. Litið yfir lengra tímabil hefur verð íslenskra sjávarafurða hækkað meira en heimsmarkaðsverð á kjöti. Þannig nemur hækkun verðs á íslenskum sjávarafurðum um 50% frá árinu 2010 en verðhækkun á kjöti nemur á sama tímabili 20%.

Þetta kemur fram í fréttabréfi hagfræðideildar Landsbanka Íslands.

Sé útflutningur sjávarafurða niður á tegundir settur á fast gengi og fast magn í tonnum talið má fá grófa mynd af verðhækkun einstakra tegunda í erlendri mynt milli ára.1 Sé litið til þeirra 20 tegunda sem skiluðu mestu útflutningsverðmæti á þessu ári sést að langmesta verðhækkun í erlendri mynt mælist í loðnu. Hagfræðideildin telur það ofmat þar sem hrogn eru hlutfallslega meira af loðnuafurðum en áður.

Næstmesta hækkunin var í humri sem hækkaði um tæp 30%. Þriðja mesta hækkunin var í Skarkola, eða 20%. Verðhækkun á langmikilvægasta fiskistofninum, þorskinum, nam 7,1% milli ára. Verð á ýsu hækkaði um 1%, ufsa um 4,6% og karfa 13,3%.

DEILA