Reykjavík fengi 200 mkr í byggðaframlag

Birtir hafa verið útreikningar á svokölluðu byggðaframlagi til sveitarfélaga sem ætlað er til þess að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.  Samkvæmt drögum að reglugerð sem er til umsagnar skal ákveða byggðaframlagið á grundvelli íbúafjölda síðustu fimm ára fyrir sameiningu. Ef fjölgun íbúa í sveitarfélagi sem tekur þátt í sameiningu hefur á því tímabili verið undir hlutfallslegri meðalfjölgun á landsvísu er veitt framlag sem nemur 500 þ.kr. fyrir hvern íbúa sem vantar til að ná landsmeðaltali.

Framlag samkvæmt þessari grein getur að hámarki numið 200 m.kr.

Aðeins tvö sveitarfélög myndu fá hámarksbyggðaframlag ef þau tækju þátt í sameiningu sveitarfélaga. Það eru Reykjavíkurborg og Akureyrarbær.  Tvö önnur myndu fá meira en 100 milljónir króna. Það eru Vestmannaeyjar og Skagafjörður.  Sveitarfélögin níu á Vestfjörðum myndu fá samtals 290 milljónir króna í byggðaframlag ef þau tækju öll þátt í sameiningu. Ísafjarðarbæ fengu stærstan hluta framlagsins eða 94 milljónir króna og Strandabyggð  fengi 53 milljónir króna.

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði frá 2014 til 2019 úr 6.877 í 7.063 eða um 186. Í Reykjavík fjölgaði á sama tíma úr 121.230 íbúum í 128.793 eða um 5.723. Landsmönnum fjölgaði um 10,96% á þessum fimm árum.

Samtals gætu byggðaframlög numið 2.404 milljónum króna ef hvert sveitarfélag landsins myndi taka þátt í sameiningu. Væri ekki sett 200 milljóna króna hámark myndi byggðaframlag til Reykjavíkurborgar verða 2.861 milljón króna.

Stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga geriri ekki athugasemd við þessar reglur um fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga en segir þó að ekki sé ásættanlegt að að sameiningarframlög verði fjármögnuð með 1 milljarðs króna skerðingu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á ári næstu 15 árin.

DEILA