Reykhólar: aðalskipulagið fyrir Þ-H samþykkt

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið aðalskipulagsbreytingar Reykhólahrepps vegna Þ-H leiðar um Gufudalssveit og Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri á sviði aðalskipulags hjá Skipulagsstofnun segir að stofnunin hafi ákveðið að staðfesta breytingarnar. Það verði gert þegar undirrituð skipulagsgögn hafi borist frá Reykhólahreppi.

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps sagði í samtali við Bæjarins besta í gær að hann myndi nú  undirrita skjölin og senda þau af stað til Skipulagsstofnunar og aðalskipulagsbreytingin tæki gildi við tilskylda opinbera birtingu. Tryggvi sagði að ekki væri um nein sérstök skilyrði að ræða af hálfu Skipulagsstofnunar, en samráð hefði átt sér stað milli sveitarfélagsins og Skipulagsstofnunar.

 

Það er því ljóst að fengnum þessum svörum  að Vegagerðin getur fljótlega sótt um framkvæmdaleyfi fyrir vegagerðinni. Búast má við því að sveitarstjórnin muni samþykkja framkvæmdaleyfið, en þá opnast fyrir kærurétt og hægt verður að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

DEILA