Reykhólahreppur: sveitarstjórn biðst afsökunar

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur beðið Rebekku Eiríkisdóttur afsökunar á því hvernig staðið var að því að skipa fulltrúa Reykhólahrepps í Breiðafjarðarnefnd. „Sveitarstjórn gerir sér grein fyrir að vinnubrögð í þessu máli voru ekki nógu góð og mun tileinka sér vandaðri vinnubrögð í framtíðinni.“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar í síðustu viku.  Tildrög málsins eru þau að fulltrúi hreppsins í Breiðafjarðarnefnd veiktist á síðasta ári og lést í mars á þessu ári. Varamaður hans, Rebekka Eiríksdóttir, gegndi störfum frá nóvember 2018 til nóvember 2019. Nýlega fór hún að ganga eftir upplýsingum um það  hver staða hennar væri í nefndinni og komst þá að því að í apríl 2019 hafði Karl Kristjánsson, sveitarstjórmarmaður verið tilnefndur sem aðalmaður. Svo virðist sem Umhverfisráðuneytinu hafi ekki verið tilkynnt um tilnefninguna fyrr en nýlega og hefur Umhverfisráðherra gefið út skipunarbréf til Karls sem aðalmanns. Hafði því Rebekka starfað í nefndinni frá apríl sem aðalmaður án þess að vita að hún væri það ekki.

Rebekka ritaði sveitarstjórninni bréf og kvartaði yfir framgangi málsins og segist fyrst hafa fengið að vita að valinn hafi verið annar aðalmaður í nefndina á síðasta fundi Breiðafjarðarnefndar.

„Í staðinn fyrir að tala við mig láta mig vita af gangi mála, að ekki sé óskað eftir mínum kröftum í þessari nefnd  þá ég fæ þær fréttir á fundi í Stykkishólmi að ég þurfi ekki að mæta meir, og hafi í raun verið varamaður á þessum fundi.  Eru þetta réttar boðleiðir, hvað finnst ykkur? “ segir í bréfi Rebekku.

Á sama sveitarstjórnarfundi var samþykkt erindi Karls Kristjánssonar um leyfi frá sveitarstjórnarstörfum  frá 1. nóv. 2019 til 1. júní 2020.

Karl hyggst hins vegar gegna störfum sem fulltrúi í Breiðafjarðarnefnd á þessum tíma.

DEILA