Motmæla banni við selveiðum

Landselur. Mynd: Erling Ólafsson.

Aðalfundur Samtaka Selabænda mótmælir fyrirhuguðu banni við selveiðum og telur bannið þýðingarlaust þar sem engar raunverulegar selveiðar séu stundaðar.

Ályktunin er tilkomin vegan áforma Sjávarútvegsráðuneytisins um að setja reglugerð sem banarn allar selveiðar. Reglugerðin er byggð á ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar um veiðibann.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um landsel er byggð á mati á stærð landselsstofnsins við Ísland. Talningar sem fram fóru sumarið 2018 sýna að sögn Hafrannsóknarstofnunar mikla fækkun í stofninum frá árinu 1980. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum fyrir landsel við Ísland skuli lágmarks stofnstærð vera um 12.000 selir. Niðurstöður stofnmats gefi til kynna að fjöldinn sé nú um 21% minni. Leggur Hafrannsóknastofnun því til að sett verði bann við beinum veiðum á landsel. Stofnunin leggur einnig til að leitað verði leiða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar.

Álytkun aðalfundar samtaka selabænda:

„Raunverulegar selveiðar eru nánast engar og hafa ekki verið í mörg ár. Aðeins hefur verið um að ræða að örfáir bændur hafa veitt fáa vorkópa til eigin neyslu. Annað sem viðkemur sel er ekki veiðar, heldur dráp, sem á sér stað við ósa laxveiðiáa. Síðan er um að ræða sel sem meðafla í grásleppunet. En það geta varla talist vera selveiðar þar sem grásleppunetin eru lögð til að veiða grásleppu og selurinn er ekki vel séður í þeim, þó talsvert af sel slæðist í þau.

Því telur fundurinn að það þurfi að taka til einhverra annarra ráðstafana en að banna bændum að fá sér í soðið.

Þess ber að geta að selveiðar bænda fara eingöngu fram innan netlaga viðkomandi jarða og hafa verið taldar þeim til hlunninda um aldir.

Vér mótmælum harðlega að þessi hlunnindi séu tekin undan jörðum okkar.“

DEILA