Mannvirkjastofnun: margar athugasemdir við slökkvilið Vesturbyggðar

Mannvirkjastofnun gerir margar athugasemdir við slökkvilið Vesturbyggðar í úttekt sem stofnunin gerði á slökkviliði Vesturbyggðar 28. maí 2019. Markmið úttektarinnar var að fylgja eftir hvernig slökkviliðið vinnur í samræmi við lög, reglugerðir og eigin brunavarnaráætlun.

Þetta kemur fram í bréfi Mannvirkjastofnunar dags 25. September sem lagt var fram í bæjarráði Vesturbyggðar 22. október 2019. Slökkviliðsstjóri kom inn á fundinn og lagði fram yfirlit yfir úrbætur segir í bókun bæjarráðsins.

Í úttektinni var spurt um ráðstafanir til að mæta athugasemdum sem gerðar voru eftir úttekt Mannvirkjastofnunar frá 2016 og 2014. Í bréfi Mannvirkjastofnunar nú kemur fram að nokkrar úrbætur hafi verið gerðar en ekki varðandi alla þætti. Talin eru upp 20 atriði sem þarfnist úrbóta og 11 atriði sem vantar.

Helstu niðurstöður eru :

að ljúka þarf gerð brunavarnaráætlunar , eldvarnareftirliti er verulega áfátt, ekki er uppfyllt ákvæði um að slökkviliðsstjóri eða varaslökkviliðsstjóri sé ávallt á vakt eða bakvakt, upplýsingar um vatn og eftirlit með brunahönum er ekki fullnægjandi og fjölga þarf brunahönum í þéttbýli, búnaður slökkviliðsins er ekki í samræmi við brunavarnaráætlun, slökkvibílar gamlir og húsnæði þarf að bæta, hlífðarbúnað slökkviliðsmanna þarf að yfirfara og bæta menntun slökkviliðsmanna.

Mannvirkjastofnun mælist til þess að úrbætur verði gerðar hið fyrsta.

 

DEILA