Komið þér sælir herra Torfason

Við Íslendingar eigum fallega þjóðbúninga.  Einkum er kvenbúningurinn glæsilegur.  Hann er til í nokkrum útfærslum.  Fátt er jafn þjóðlegt og kona á upphlut eða í peysufötum.  „Heilsaðu einkum ef að fyrir ber, engil með húfu og rauðan skúf í peysu; þröstur minn góður, það er stúlkan mín“.  Þannig orti Jónas Hallgrímsson um stúlkuna, sem hann lét sig dreyma um.

En svo eru aðrir búningar, sem einnig snerta við þjóðarsálinni, og það eru búningar landliðskvenna og -karla í knattspyrnu.  Þeir eru yfirleitt bláir að lit, stundum eru stuttbuxurnar hvítar og einhvern tíma voru hvítar og rauðar rendur á bláa búningnum.  Þessir þrír litir, blár, hvítur og rauður vísa vitaskuld til íslenska fánans, sem er heiðblár með eldrauðum krossi innan í mjallhvítum krossi.  Í barnaskólanum lærði ég það að blái litur fánans vísaði til hins heiðbláa himins, sem er svo einkennandi fyrir Ísland en hér er loftið tærara en í Suðurlöndum.  Þá átti hvíti liturinn í fánanum að vísa til snævi þakinna fjallstoppa, sem víða gnæfa yfir byggðum landsins.  Og rauði liturinn minnir okkur á eldinn, sem kraumar í iðrum jarðar.

Núverandi búningur íslenska landsliðsins í knattspyrnu er því miður frekar óþjóðlegur og óíslenskur þrátt fyrir að notaðir séu í hann hinir hefðbundnu litir; blár, hvítur og rauður.  Hvernig má svo sem annað vera þegar hann er framleiddur af fyrirtæki, sem heitir Errea en það þýðir steiktur á basnesku.  Þá er búningurinn hannaður af Ítalanum Filippo Affani.  Auðvitað ætti íslenskur búningur að vera hannaður af Íslendingi og saumaður hér heima.  Nóg er til af íslenskum hönnuðum og það nokkuð góðum.  Nei, því miður þá er búningur íslenska landsliðsins í knattspyrnu saumaður á meginlandi Evrópu og hannaður þar einnig.

En allt eru þetta hreinir og klárir smámunir miðað við það hvað óþjóðhollir menn hafa látið setja aftan á búninginn.  Þar hafa þeir látið skrá nöfn leikmanna samkvæmt evrópskri málhefð og stöðlum.  Pistlahöfundur á oft í hreinustu erfiðleikum með að átta sig á hver er að tækla boltann hverju sinni.  Hver er hann þessi Sigurðsson?  Er þetta Gylfi Þór eða Arnór?  Og Fjóluson, hver er nú það?  Sem betur fer þá veit maður nú alltaf að með Viðarsdóttur er átt við hana Margréti Láru, þá frábæru knattspyrnukonu.

Á Íslandi er sú málhefð og málvenja að ávarpa fólk með eiginnafni sínu.  Pistlahöfundur heitir Magnús og hann er sonur Erlings og Sigríðar og gæti þar að leiðandi kennt sig til þeirra beggja og verið bæði Erlingsson og Sigríðarson.  En nafn mitt er ávallt Magnús.  Ég var skírður Magnús og ég heiti Magnús.

Af hverju má íslenskt knattspyrnufólk ekki vera merkt með nafninu sínu á bakinu?  Væri það ekki miklu eðlilegra ef það stæði Sara Björk aftan á búningi landsliðsfyrirliðans heldur en Gunnarsdóttir?  Þessi árátta að merkja leikmennina feðrum þeirra og tiltaka hvers synir og dætur þau eru, virkar á pistlahöfund eins og leyfar gamallar feðraveldishyggju.  Engum íslenskum þróttafréttamanni dytti það í hug eitt andartak að tala um herra Guðjohnsen, sem einu sinni lék með Chelsea og Barcelona.  Og enginn Ísfirðingur myndi ávarpa hann Jóhann Króknes fótboltakappa með því segja:  Komið þér sælir herra Torfason!  Svoleiðis ávarp yrði talið til marks um hótfyndni.

Nú er það vissulega svo að þulirnir í enska sjónvarpinu nota yfirleitt ættarnöfn þegar þeir lýsa leikjum.  Rashford átti gott skot, segja þeir.  Raunar talar Paddy Gerald alltaf um Marcus Rashford þegar hann er að fjalla um eða lýsa leikjum United.  Á Englandi mun það víst málvenja að ávarpa fólk með ættarnöfnum.  Good morning Mr. Smith, segja þeir ensku.  En það er aftur móti athyglisvert að þegar þeir ensku tala um aðilinn og kóngafólkið þá nota þeir íslensku aðferðina og ávarpa það með nafni.  Þannig er alltaf talað um Elísabetu Englandsdrottningu en ættarnafn hennar látið liggja í láginni.  Amma pistlahöfundar talaði reyndar alltaf um Betu drottingu og Kalla prins.  Ef þú ert „Sir“ á Englandi þá ertu alltaf ávarpaður með nafninu þínu.

Af hverju mega nöfn íslenskra kvenna og karla ekki birtast á landsliðsbúningnum?  Af hverju mega áhorfendur ekki sjá hver er að spyrna boltanum hverju sinni?  Af hverju stendur nafn leikmannsins ekki aftan á treyjunni hans?  Þetta er þess undarlegra þegar haft er í huga að margir af þekktustu fótboltamönnum heims hafa notað eiginnöfn sín en ekki kenninöfn aftan á sína búninga.  Þekkir einhver fótboltamennina Aveiro, Cuccittini og Nascimento?  Ekki býst ég nú við því, enda þótt þetta séu kenninöfn þriggja þekktra knattspyrnusnillinga.  Nei, þessir þrír eru allir þekktir undir sínu eiginnafni eða gælunafni.  Við þekkjum þá sem Ronaldo, Messi og Pelé.

Veljum íslenskt, tölum og hugsum á íslensku.  Áfram Ísland!

Magnús Erlingsson, prestur á Ísafirði.

DEILA